Tilgangslausu dyrnar verði aðdráttarafl fyrir gesti á Breiðdalsvík

ibuafundur bdalsvik mars14 0010 webTilgangslausu dyrnar á Íslandi eða „The Pointless Door of Iceland" er meðal þeirra hugmynda sem rædd var til að auðga mannlíf á Breiðdalsvík á íbúafundi í síðustu viku. Hugmyndin gengur út á dyr sem standi á víðavangi.

„Hugmyndin er að staðsetja dyr einhvers staðar sem eru gjörsamlega tilgangslausar en menn geta farið í gegnum og látið taka af sér mynd," sagði Ólafur Áki Ragnarsson, verkefnastjóri hjá Austurbrú sem fylgdi hugmyndinni úr hlaði á fundinum.

Hún kom fram í kjölfar íbúaþings í byrjun nóvember og hefur nánar útfærð síðan þá. Þannig hafa menn komið sér saman um að best sé að hafa hana inni í þorpinu til að tengja hana við þjónustuna sem þar er..

„Þetta getur orðið verulegt tákn fyrir svæðið en það þarf að vinna hugmyndina vel. Þetta geta orðið spýtur sem enginn fer um eða verk sem allir vilja upplifa," sagði Signý Ormarsdóttir, menningarfulltrúi Austurlands.

Breiðdælingar hafa rætt að tengja dyrnar við átak sem þeir kalla „rölt og brölt" sem snýr að fegrun umhverfisins og uppbyggingu gönguleiða. „Markmiðið er að Breiðdalsvík verði áfangastaður en ekki viðkomustaður," sagði Páll Baldursson, hreppsstjóri.

Af þeim verkefnum sem fram komu á íbúaþinginu í haust er hugmynd um rafræna leiðsögn hvað lengst komin en vonir standa til að hún fari mögulega í gang strax í sumar. Fleiri austfirsk sveitarfélög vinna með Austurbrú að slíkri uppbyggingu.

Annað listaverk sem er á prjónunum kallast „Vörður." Þar stendur til að sýna fjórar gerðir af gömlum hleðsluaðferðum í aðgengilegu listaverkefni. Það yrði unnið með grunnskólanum og fengju elstu nemendurnir að kynnast handtökunum við hleðslu.

Þá er beðið eftir greinargerð frá hópi nemenda úr Listaháskólanum sem heimsótti Breiðdalinn síðasta sumar og gerði úttekt á aðkomu ferðamanna.

„Við höfum fullt af ferðamönnum. Þeir fara bara hratt í gegn – nema þeir sem eru fastir," sagði einn fundargesta.

Íbúafundurinn var haldinn í tengslum við verkefnið brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.