Kæra ákvörðun Byggðastofnunar um að úthluta ekki viðbótarkvóta til Breiðdalsvíkur

ibuafundur bdalsvik mars14 0002 webHópur útgerðarmanna sem komið hefur á hóp fiskvinnslu á Breiðdalsvík hefur sent atvinnu- og nýsköpunarráðherra stjórnsýslukæru út af ákvörðun Byggðastofnunar um að úthluta engum viðbótarbyggðakvóta í byggðarlagið. Íbúar segjast ekki lifa á viljanum einum saman.

Byggðastofnun hefur næstu fimm fiskveiðiár 1800 þorskígildi til ráðstöfunar til að styðja byggðarlög „í alvarlegum og bráðum vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi." Að undangengnu forvali voru sex byggðir taldar koma til greina, þeirra á meðal Breiðdalshreppur. Fimm þeirra fengu kvóta, auk Bakkafjarðar sem ekki var inni í úrvalinu, en ekkert kom í Breiðdalinn.

Útgerðarmenn á Breiðdalsvík stóðu saman að umsókn um viðbótarkvótann sem þeir ætluðu að nota til að koma af stað fiskvinnslu á staðnum. „Menn voru orðnir pirraðir að sjá aðra starfrækja vinnslu og loka svo með tilheyrandi óvissu," sagði Elís Pétur Elísson, sem hafði orð fyrir þeim á fundinum í síðustu viku.

„Markmiðið var að styrkja kvótastöðuna og koma af stað öflugri vinnslu í eigu heimamanna. Þetta voru engar skýjaborgir heldur jarðbundnar áætlanir."

Óheppileg tímasetning

Tvennt ergði Breiðdælinga enn frekar. Þeir segja starfsmenn Byggðastofnunar hafa komið í heimsókn og lýst yfir ánægju sinni með umsóknina. Hitt var að helgina fyrir höfnunina var haldið íbúaþing á vegum Byggðastofnunar um framtíð byggðar í hreppnum. Tímasetningin þótti því sem rýtingsstunga í bakið.

Fulltrúar Byggðastofnunar viðurkenndi að tímasetningin hefði verið óheppileg. „Við hefðum viljað heppilegri tímasetningar og málið hefði verið rætt á íbúaþinginu. Málsmeðferðin skapaði óánægju," sagði Aðalsteinn Þorsteinsson forstjóri Byggðastofnunar.

Hann sagðist hafa skilning á vonbrigðunum og málið hefði verið rætt meðal stjórnar og starfsmanna síðar. „Það verður seint til vinsælda fallið að vinna við að úthluta fríum veiðiheimildum."

Hann vildi að öðru lagi ekki einstakar umsóknir efnislega á meðan kærumálið væri í gangi en svaraði fyrirspurnum um ástæðu þess að Bakkafjörður hefði fengið viðbótarkvóta með að byggðin hefði verið „á þröskuldinum" fyrr í ferlinu og atvinnulífið þar væri „einhæfara ef eitthvað er. Þar eru engin störf önnur en þau sem tengjast fiskvinnslu."

Málið er upphaflega tekið fyrir á fundi Byggðastofnunar í byrjun nóvember. Þar segir að umsóknir frá Breiðdalsvík feli „í sér takmarkað mótframlag og takmarkaðar fyrirætlanir um vinnslu." Síðar í fundargerðinni er ítrekað að umsóknunum sé hafnað þar sem þær „feli ekki í sér viðamikla starfsemi sem skipt geti sköpum um framtíð byggðarinnar."

Á stjórnarfundi í desember er tekið fyrir bréf frá sveitarstjóra Breiðdalshrepps þar sem óskað er eftir að stjórnin endurskoði ákvörðun sínar. „Ekki hafa komið fram nýjar upplýsingar sem gætu breytt fyrri ákvörðun, og er því beiðni um endurupptöku hafnað," segir í bókun.

Vilja kvóta til að bjarga sér sjálfir

En þrátt fyrir höfnunina er vinnslan komin í gang. Elís Pétur sagði að ætlunin hefði verið að nota arðinn af vinnslunni og byggðakvótanum til að styrkja kvótastöðu plássins enn frekar.

„Við erum ekki að fara fram á beinan fjárstuðning heldur aflaheimildir til afnota þannig menn geti bjargað sér sjálfir. Ef kjölfestuna vantar í byggðarlagið er stefnan bara í eina átt. Til að snúa henni við þarf samhent átak heimamanna með aðkomu stjórnvalda.

Breiðdælingar hafa þekkinguna, viljann og getuna en stjórnvöld hafa ekki sýnt þessu verkefni áhuga í verki."

Nokkur gagnrýni kom fram á Byggðastofnun í upphafi fundar meðan málið var til umræðu. Einn fundarmanna hafði á orði að „enginn lifir á viljanum einum saman."

Á fundinum var samþykkt ályktun þar sem skorað var á stjórnvöld að tryggja nauðsynlegt viðbótaraflamark til Breiðdalsvíkur því aukinn byggðakvóta sé sú kjölfesta sem atvinna í byggðarlaginu þurfi.

Fundinn sátu á fimmta tug þátttakenda, eða álíka margir og íbúaþingið í byrjun nóvember. Með fundinum var fylgt eftir hugmyndum þaðan svo sem um atvinnusköpun í gamla frystihúsinu og ferðamennsku. „Við trúum á fjölbreytt verkefni og viljum vinna að þeim með heimamönnum," sagði Aðalsteinn.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.