Gert ráð fyrir afgangi hjá Djúpavogshreppi: Mikill viðsnúningur í rekstri síðustu ár

djupivogur 280113 0018 webGert er ráð fyrir tæplega tólf milljóna króna afgangi af rekstri Djúpavogshrepps á næsta ári. Skuldir sveitarfélagsins hafa lækkað hratt síðustu ár. Sveitarstjórnin telur ástæðu til bjartsýni í ljósi þess að ungt barnafólk hefur sest að í hreppnum síðustu ár.

Í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir næsta ár er gert ráð fyrir 11,5 milljóna hagnaði en veltufé frá rekstri er áætlað 35,7 milljónir.

Skuldir nema alls 436,2 milljónum króna en þær hafa lækkað töluvert síðustu ár. Árið 2010 voru þær 584 milljónir króna og skuldahlutfall sveitarfélagsins 168%. Gert er ráð fyrir að það verði komið undir 100% á næsta ári.

Engin ný lán hafa verið tekin síðustu ár en unnið í því að borga niður skuldir, meðal annars með sölu eigna. Tekjur sveitarfélagsins árið 2010 voru tæpar 350 milljónir en voru orðnar rúmar 400 milljónir árið 2012.

Í bókun sveitarstjórnar með fjárhagsáætluninni segir að hún líti björgum augum fram á veginn, ekki síst í ljósi íbúaþróunar. „Kraftmikið ungt fjölskyldufólk" hafi fjárfest og sest að á Djúpavogi í auknum mæli á síðustu árum og nú sé svo komið að hlutfall ungra barna sé hvergi hærra á Austurlandi. Austurfrétt greindi frá því í lok síðasta árs að húsnæði bæði leik- og grunnskóla væri sprungið.

Sveitarstjórnin telur brýnt að bæta úr atvinnuleysi. Mikið hafi samt dregið úr því síðustu ár, meðal annar með verkefnum sem sveitastjórnin hafi haft forgöngu um. „Skráðir atvinnulausir hafa ekki verið jafn fáir um langan tíma."

Fjárhagsáætlunin byggist meðal á áætlun um sölu eigna en samþykkt var að stefna að því að losa um eignir sem komi ekki við lögbundnum verkefnum.

Smábátahöfn, gamla kirkjan og Ríkharðssafn

Ýmsar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í sveitarfélaginu á nýju ári. Ráðast á í endurnýjun lagna og jarðvegsskipti í tveimur götum og hönnum fráveitu. Smábátahöfnin verður einnig byggð upp.

„Það hafa orðið gerbreytingar á útgerðinni, að minnsta kosti yfir sumarið," sagði Andrés Skúlason, oddviti, á íbúafundi í vor.

Hann segir strandveiði hafa orðið til þess að höfnin „fyllist af bátum." Breytt útgerðarmunstur gerir það að verkum að gamla bryggjan dugir ekki lengur og því þarf að ráðast í uppbyggingu í smábátahöfninni.

Til stendur að endurbyggja svokallað Faktorshús. Framtíðarnýting þess er óákveðin en Andrés sagðist á fyrrnefndum íbúafundi fullviss um að slíkt hús yrði ekki lengi verkefnalaust. Enduruppbyggingin er þó háð mótlagi frá ríkinu.

Einnig er horft til endurbyggingar gömlu kirkjunnar og eru teikningar til þess tilbúnar. Kaþólska kirkjan mun hafa sýnt áhuga á að fá að nýta hana. Áætlað er að endurbygging kirkjunnar kosti 20 milljónir króna.

Gert er ráð fyrir að halda áfram hönnun á Ríkharðshúsi í samstarfi við afkomendur listamannsins Ríkharðs Jónssonar sem hafa ánafnað muni í safnið.

Af öðrum verkefnum má nefna uppbyggingu og skipulag að Teigarhorni og rannsókna um nýtingu jarðhita.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.