Takmarkað fé í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar: Ekki gert ráð fyrir að hálkuverja á Jökuldal

fjardarheidi 30012013 0075 webSamkvæmt verklagsreglum Vegagerðarinnar er ekki gert ráð fyrir að hálkuverja Hringveginn þar sem hann liggur um Jökuldal. Upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar segir reglurnar settar til að reyna að nýta það takmarkaða fjármagn sem fyrir hendi sé sem best. Stundum sé gert meira en kveðið er á um í þeim en það sé ekki alltaf hægt.

Eins og Austurfrétt greindi frá í gær skapaðist mikil hálka á Hringveginum um Jökuldal seinni part fimmtudags. Að minnsta kosti fimm bílar fóru þar út af á stuttum tíma.

Atvinnubílstjórar sem Austurfrétt hefur rætt við og voru á ferð um veginn á þessum tíma gagnrýna Vegagerðina fyrir takmarkaða upplýsingagjöf, þar sem aðeins hafi verið sögð hálka á veginum í kortum Vegagerðarinnar og að vegurinn hafi ekki verið sandborinn eða betur hálkuvarinn.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að ávallt sé unnið eftir reglum Vegagerðarinnar um vetrarþjónustu. Samkvæmt þeim á ekki að hálkuverja á Jökuldal.

„Þó hafa okkar menn fyrir austan verið að rífa svell og hálkuverja þar síðustu daga," sagði hann í svari við fyrirspurn Austurfréttar um hvers vegna ekki hefði verið brugðist við aðstæðunum sem sköpuðust á fimmtudag.

„Eðlilega á fólk erfitt með að skilja að vegirnir okkar séu ekki hálkuvarðir við þessar aðstæður sem hafa verið að undanförnu. En snjómokstursreglurnar eru settar og eftir þeim unnið til þess að geta nýtt sem best takmarkað fé til vetrarþjónustu á öllu vegakerfinu -- eða þessum 5000 km sem er sinnt í vetrarþjónustunni af 13.000 km í heild.

Þrátt fyrir að sumum finnist lítið gert þá er mörg hundruð milljóna króna halli á vetrarþjónustunni. Erfitt tíðarfar undanfarna vetur er m.a. ástæða þessa mikla halla."

Hann segir að á fimmtudagsmorgun hafi veghefill og snjóblásari farið um Jökuldal. Færðist hafi haldist ágæt fram til um klukkan fimm síðdegis en þá var orðið flughált og hvasst. Hann segir ekki rétt að Vegagerðin hafi neitað að fara af stað þar sem almennum vinnutíma hafi verið lokið.

„Samkvæmt snjómokstursreglum Vegagerðarinnar á ekki að hálkuverja þennan kafla og þess vegna snerist málið ekki um hvaða tími dags var.

Það kemur fyrir að svæðinu sinnt fram yfir verklagsreglur en það er ekki hægt að gera það í öllum tilvikum einfaldlega vegna fjármagnsskorts."

Hann segir mikilvægt að vegfarendur kynni sér snjómokstursreglurnar vel og taki alltaf mið af aðstæðum.

„Sérstaklega ættu atvinnubílstjórar að kynna sér þetta vel og haga tímasetningum ef hægt er eftir því, fyrir utan að vera á þannig útbúnum bílum að þeir ráði við hálkuástand."

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.