Ráðherra leggur til eitt sýslumannsembætti á öllu Austurlandi

logregla syslumadursey heradsdomuraustAusturland verður eitt sýslumanns- og lögregluumdæmi samkvæmt frumvarpi sem innanríkisráðherra lagði fram á Alþingi í morgun. Markmið frumvarpsins er að ná fram hagræðingu og efla faglega þekkingu í umdæmunum.

Um er að ræða tvö frumvörp, annars vegar um framkvæmdavald og stjórnsýslu ríkisins í héraði sem fjallar um sýslumennina og hins vegar um breytingu á lögreglulögum.

Gert er ráð fyrir að frá og með 1. janúar árið 2015 verði nánast öll núverandi sýslumannsembætti, sem eru 15 talsins, lögð niður og níu ný stofnuð í þeirra stað. Í frumvarpinu er talað um eitt Austurlandsembætti.

Í dag eru sýslumenn á Seyðisfirði, Eskifirði og Höfn í Hornafirði. Í frumvarpinu er gengið út frá að ráðherra kveði um það í sér reglugerð hversu stór umdæmin verði að höfðu samráð við viðkomandi sýslumenn og sveitarfélög.

Því er með öllu óljóst hvort Höfn fari undir Austurlands- eða Suðurlandsumdæmi. Þá er alls óljóst hvar sýslumaðurinn í Austurlandsumdæmi mun sitja.

Einnig er lagt til að lögregluumdæmum landsins verði fækkað úr 15 í 8. Þeim var áður fækkað úr 24 árið 2007 og er það sagt hafa gefið góða raun. Lögreglustjórar eru á Egilsstöðum, sem tilheyrir sýslumanninum á Seyðisfirði, og Eskifirði í dag en Hornafjarðarsvæðið heyrir undir síðarnefnda umdæmið.

Við þessar breytingar verður löggæslu- og ákæruvald fært frá sýslumönnum til lögreglustjóranna.

Vinna við breytingarnar hefur staðið í 4-6 og áður verið lögð fram efnilega svipuð frumvörp þótt þau hafi ekki náð fram að ganga.

Gert er ráð fyrir að almennum starfsmönnum, til dæmis lögreglumönnum, verði boðin vinna hjá hinum nýju embættum. Sýslumönnum eða lögreglustjórum sem ekki hljóta skipanir fá önnur störf hjá embættunum eða innanríkisráðuneytinu.

Markmið breytinganna er meðal annars að ná fram hagræðingu, sem gæti numið tugum milljóna króna. Þá er gengið út frá því að stærri og öflugri embætti verði sterkari faglega en minni sýslumannsembættin eru í dag talin of veikburða til að halda uppi öflugri þjónustu.

Gert er ráð fyrir að sýslumannsembættin sjái um þjónustu fyrir hið opinbera í héraði og með stækkuninni opnist enn frekari möguleikar á að flytja verkefni frá stofnunum í Reykjavík út á land.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.