100 snjóflóð fallið á Austfjörðum síðastliðna viku

Um 100 snjóflóð hafa fallið á Austfjörðum síðastliðna viku. Veðurstofan vinnur nú úr þeim gögnum. Á meðal flóðanna var mjög stórt flóð sem féll úr Drangagili þann 30. mars og er skráð upp á stærð 4 samkvæmt Veðurstofunni. Það eru snjóflóð sem hafa mikinn eyðileggingarmátt og hafa rúmmál upp á 10 þúsund tonn. Til samanburðar var flóðið úr Nesgili, sem lenti á húsunum í Starmýri 3,5 að stærð.

Snjóflóðið sem féll úr Drangagili er flokkað sem þurrt flekahlaup af stærð 4. Þetta var stórt snjóflóð sem féll á keilurnar og að varnargarðinum fyrir ofan Blómsturvelli.

Snjóflóðasérfræðingur hjá Veðurstofunni segir að flóðið hafi fallið úr Drangagili og á keilurnar sem spiluðu töluvert í því að draga úr mætti flóðsins. Ekki er hægt að segja frekar til um stærð flóðsins því Veðurstofan er nú að vinna í gegnum öll gögn sem búið er að safna síðustu daga. Það er gríðarlegt mikið magn af gögnum sem Veðurstofan þarf að vinna úr á næstu dögum því talið er að um 100 flóð hafi fallið á Austfjörðum. Stærð og umfang flóðanna kemur betur í ljós á næstu dögum og vikum.

Hlynur Sveinsson, íbúi í Neskaupstað, hefur verið að safna gögnum um flóðin fyrir Veðurstofuna. Hlynur birti pistil á Facebook þar sem hann undirstrikar stærð þessa flóðs og mikilvægi varnargarðanna. Þar skrifaði Hlynur: „Varnargarðamannvirki stóðu aldeilis fyrir sínu á miðvikudag þegar keilur þeirra splúndruðu líklega einu stærsta snjóflóði sem komið hefur úr fjallinu ofan byggðar síðan 1974. Þetta flóð kom úr Drangagili og mældist 240 m breitt. Ef það hefði ekki verið fyrir varnagarðamannvirki hefði þetta flóð að öllum líkindum farið niður í byggð og í það minnsta rústað útenda Blómsturvalla ef ekki fleiru.”

Hlynur greinir frá því í pistlinum að nokkrir sjónarvottar voru af flóðinu og öllum bar þeim saman að hafa séð spíur standa 25-30 m upp í loftið. „Það gerist þegar keilurnar splúndra flóðinu, það náði samt ekki alveg að varnargarðinum sjálfum vegna þess hversu mikið keilurnar drógu úr afli þess. Þetta sýnir hvers megnug þessi varnarmannvirki eru og þörfina fyrir að við klárum þetta með nýja garðinum út eftir eins fljótt og hægt er,” skrifar Hlynur.

Mynd: Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.