100 milljónir í fyrirframgreidda leigu

Landsvirkjun mun greiða sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði 100 milljónir í fyrirframgreidda leigu fyrir sýningaraðstöðu í Sláturhúsinu á Egilsstöðum. Fénu verður varið í uppbyggingu hússins.

Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs og Kristín Linda Árnadóttir, aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu samning þessa efnis í húsinu í morgun. Samningurinn á sér langan aðdraganda, en fyrirtækið og sveitarfélagið hafa átt í samræðum árum saman um aðkomu að uppbyggingu hússins.

„Hér verður sýningaraðstaða sem verður samvinnuverkefni sveitarfélagsins og Landsvirkjunar. Í frystiklefanum hér á neðri hæð verður svokölluð Ormsstofa,“ sagði Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Samkvæmt samningnum greiðir Landsvirkjun 10 ára leigu, alls 100 milljónir króna, fyrirfram. Stefnt er á að Landsvirkjun verði með sýningaraðstöðu í rýminu en sýningin hefur ekki verið útfærð enn.

„Þetta mun gera sveitarfélaginu auðveldara að fjármagna verkefnið menningarhús, sem er nær yfir meira en akkúrat þetta rými,“ sagði Björn.

Trú á verkefninu og húsinu

Uppbygging aðstöðu fyrir menningarstarfsemi á Egilsstöðum nær bæði til Sláturhússins og Safnahússins. Áætlað er að endurbætt aðstaða verði tilbúin árið 2022 og kosti tæpan hálfan milljarð. Um helmingur þess fjár kemur frá menntamálaráðuneytinu.

„Það er okkur afskaplega mikil ánægja að taka þátt í þessu verkefni. Við viljum starfa í okkar nærsamfélagi og fannst þetta tilvalið verkefni til að taka þátt í. Okkur fannst Ormsstofuhugmyndin frábær þar sem tengt er við söguna. Við getum hér sýnt hvað við erum að gera við orkuna og tengjum við samfélagið.

Þetta verkefni hefur tekið tíma en þroskast. Við höfum sannarlega trú á þessu húsi og verkefni,“ sagði Kristín Linda.

Eftir undirrituna gaf Björn Kristínu Lindu penna merktan sveitarfélaginu Fljótsdalshéraði, en hann sagði pennann mikil menningarverðmæti því sveitarfélagið heyrir brátt sögunni til með formlegri sameiningu við þrjú önnur. Kristín Linda þakkaði fyrir pennann og baðst afsökunar á að hún hefði engan penna. Björn sagði það ekki koma að sök, hann væri sáttur við samninginn!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.