Nýr meirihluti í Fjarðabyggð boðar aga í fjármálum

Skrifað var undir samkomulag um myndun nýs meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í bæjarstjórn Fjarðabyggðar í dag. Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, verður áfram forseti bæjarstjórnar en Rangar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, verður formaður bæjarráðs. Aðhald í fjármálum, viðgerðir á íþróttahúsinu á Eskifirði og sérstakt félag utan um hafnir sveitarfélagsins eru meðal áhersluatriða í meirihlutasamkomulaginu.

„Við erum að fara að taka mun fastar á fjárhag sveitarfélagsins. Við ætlum að fara í breytingar á fjárhagsáætlun. Við horfum til þess að þegar verk fara fram úr áætlun verði strax gerðir viðaukar og annað dettur út. Þannig verður miklu meiri agi á fjármálum sveitarfélagsins.

Fyrsti kafli (samkomulagsins) er um traustan rekstur og þar kemur fram hvernig við ætlum að nálgast það verkefni,“ segir Ragnar.

Nefndum fækkað en starfsfólki ekki sagt upp


Fyrri meirihluti var búinn að búa til eina nefnd fyrir skipulags- og framkvæmdasvið og ákveða að sameina félagsmálanefnd, fræðslunefnd og íþrótta- og tómstundanefnd í aðra. Sameining síðarnefndu nefndarinnar verður núna strax, en ekki síðar í vor eins og fyrirhugað var, auk þess sem fulltrúar í báðum nefndunum verða fimm í stað sjö.

Ragnar segir þetta fyrstu hagræðingaraðgerðirnar því með þessu fækki nefndarfólki um tólf. Þá er horft til þess að nýta starfsmannaveltu til að forgangsraðaverkefnum. Það þýðir að uppsagnir eru ekki í kortunum en þegar starfsmenn hætta sé ekki sjálfkrafa ráðinn nýr einstaklingur í sama starf heldur tækifærið mögulega notað til breytinga.

„Við horfum til þess hvernig við getum lækkað skuldir og það sé stöðug rýni á rekstrinum til staðar. Þegar verða breytingar (á starfsfólki) þá veltum við fyrir okkur hvort sé möguleiki á sameiningu eða samnýtingu,“ bætir Jón Björn við.

Hann segir að þó meiri agi sé boðaður þá þýði það ekki að agaleysi hafi ríkt í fjármálunum síðustu árin. Hins vegar þurfi alltaf að hafa augun á rekstrinum og síðustu vikur hafi verið rætt hvernig megi ná yfirsýn. „Við segjum að nú séum við að einbeita okkur að því sem er grundvallarrekstur sveitarfélagsins. Við viljum skapa samfélag sem tekur vel á móti íbúum og er með gott fræðslu- og félagskerfi og annað slíkt. Til þess þurfum við að halda vel utan um reksturinn.“

Úttekt á fasteignum sveitarfélagsins


Annað atriði í rekstrinum er að Fjarðabyggðarhafnir verði sérstakt félag. Kanna á kosti og galla þess og hvað rekstrarform henti. „Sennilega er fýsilegast að gera þær að samlagsfélagi. Við ætlum að stíga þessi fyrstu skref og greina tækifærin,“ segir Ragnar.

Gera á átak í að greina nýtingu fasteigna sveitarfélagsins með það markmið að fækka þeim strax á næsta ári. Jón Björn segir að farið verði yfir ástand þeirra og notkun og í framhaldi sinnt viðhaldi þar sem þess sé þörf meðan annað húsnæði kunni að verða selt, afhent notendum eða jafnvel rifið. „Þar geta lóðirnar boðið upp á fleiri möguleika. Við getum nefnt dæmi að við höfum rifið gamla slökkvistöð á Norðfirði og lóðin er að fara til úthlutunar sem íbúðahúsalóð.“

Framkvæmdir við íþróttahúsið á Eskifirði á næsta ári


Í atvinnumálum er áfram lögð áhersla á uppbyggingu sem tengist orkugarði á Reyðarfirði með það að markmið að Fjarðabyggð verði ein af miðstöðvum orkuskipa á Íslandi. Stuðla á að klasasamstarfi milli sveitarfélags og atvinnulífs og koma á samráðsvettvangi milli þessara aðila um hagsmunamál sem tengjast samfélaginu. Auka á framboð fjölbreyttra lóða.

Nokkrar framkvæmdir eru sérstaklega tilgreindar í sáttmálanum. Þrýsta á um að hönnun ofanflóðavarna við Grjótá á Eskifirði verði lokið þannig hægt sé að ganga frá skipulagi miðbæjar. Fara á í hönnun og undirbúning þannig hægt sé að hefja framkvæmdir við íþróttahúsið á Eskifirði, sem hefur verið lokað í rúmt ár vegna myglu. Vinna á að einangrun og upphitun Fjarðabyggðarhallarinnar með að leita nýrra leiða við framkvæmdir og fjármögnun. Ekki fengust skýr svör um það í dag hvort önnur verkefni yrðu færð aftar í forgangsröðunina vegna þessa.

Beðið eftir menntamálaráðuneytinu


Í fræðslumálum er talað um að auka sveigjanleika í dagvistun og draga úr álagi á leikskóla. Þá verði áfram unnið að því að útfæra skólaumhverfi Fjarðabyggðar til að efla faglegt starf. Það voru skólamálin sem felldu fyrri meirihluta eftir klofning í atkvæðagreiðslu um breytingar sem síðan hefur verið harðlega mótmælt af skólasamfélaginu. Kennarasambandið óskaði eftir áliti mennta- og barnamálaráðuneytisins á því hvort breytingarnar stæðust lög.

Oddvitarnir segja að beðið sé eftir niðurstöðu ráðuneytisins áður en frekari skref verið stigin í kjölfar samþykktar bæjarstjórnar. Starfshópur um fræðslumál haldi hins vegar áfram störfum, enda hafi breytingar á yfirstjórnum skólanna eða ytra umhverfi þeirra, aðeins verið fyrsta skrefið. Framundan sé vinna við innra starfið, svo sem kennslutímamagn, sem verði í samráði við kennara og foreldra.

Af öðrum atriðum í samkomulaginu má nefna að stíga á fyrstu skrefin í átt að opnu bókhaldi á kjörtímabilinu, bjóða upp á reglulega viðtalstíma í öllum byggðakjörnum með æðstu stjórnendum sveitarfélagsins og kjörnum fulltrúum, koma á fjölmenningarráði sem samráðsvettvangi við íbúa af erlendum uppruna og byggja upp Stríðsárasafnið á núverandi svæði á Reyðarfirði og tengja það betur við bæinn.

Hvernig skiptist formennska í nefndum?


Nýr meirihluti tók við á bæjarstjórnarfundi í dag þar sem gengið var frá kjöri Ragnars og Jóns Björns í þeirra embætti. Þeir munu sitja í bæjarráði ásamt Stefáni Þór Eysteinssyni, oddvita Fjarðalistans. Þórdís Mjöll Benediktsdóttir, Sjálfstæðisflokki verður fyrsti varaforseti bæjarstjórnar og Hjördís Helga Seljan Þóroddsdóttir, Fjarðalista, annar varaforseti.

Sjálfstæðisflokkurinn mun leiða hafnarstjórn og fjölskyldunefnd. Heimir Snær Gylfason verður formaður hafnarstjórnar en Ragnar stýrir fjölskyldunefndinni þar til Jóhanna Sigfúsdóttir kemur úr fæðingarorlofi. Framsóknarflokkurinn mun leiða Menningarstofu og skipulags- og framkvæmdanefnd. Fulltrúar flokksins verða staðfestir í næstu viku. Jóna Árný Þórðardóttir verður áfram bæjarstjóri.

Á fundinum í dag voru nefndabreytingarnar lagðar fram til staðfestingar. Fulltrúar Fjarðalistans sátu hjá og bókuðu áhyggjur af afleiðingum þess að fækka fulltrúum í fjölskyldunefndinni úr sjö í fimm. Þeir segja verkefni nýju nefndarinnar afar víðfeðm og þess vegna þurfi hún að endurspegla skoðanir og raddir fjölkjarna sveitarfélags. Ekki sé heldur ljóst að með fækkun fulltrúa sé hægt að nefndin geti fjallað um öll hennar málefni af þeirri alúð sem þurfi.

Nýr meirihluti hefur sjö fulltrúa af níu í bæjarstjórn, Framsóknarflokkur þrjá og Sjálfstæðisflokkur fjóra.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.