Fjarðabyggð sek um að svara beiðni um smölun fjár of seint

Innviðaráðuneytið telur sveitarfélagið Fjarðabyggð hafa brotið gegn stjórnsýslulögum með óhóflegum töfum á að svara beiðni landeiganda í Stöðvarfirði um að sveitarfélagið smalaði fé af landi hans. Ráðuneytið metur ekki hvort sveitarfélagið hafi verið skylt til að smala.

Eigendur Óseyrar í Stöðvarfirði sendi ráðuneytinu kæru þann 11. júlí í fyrra á töfum Fjarðabyggðar við beiðni um að smala ágangsfé af landi þeirra. Þeir höfðu fyrst þann 16. júní óskað eftir að sveitarfélagið smalaði fénu.

Þeir ítrekuðu beiðni sína tveimur vikum seinna og viku fyrir kæruna höfðu óskað skaðabóta af hálfu sveitarfélagsins. Bæjarráð Fjarðabyggðar brást jafnan við að vísa erindunum til fjallskilanefndar sem á fundi sínum 13. júlí óskaði eftir lögfræðiáliti. Tveimur vikum síðar neitaði fjallskilanefndin að smala með vísan í álitið.

Brýnt að forða frekara tjóni


Í rökstuðningi sínum bendir landeigandinn á að ágangsfé í landi hans geti valdið tjóni á ræktun sem aukist með tímanum. Sveitarfélagið hefur hins vegar borið fyrir sig réttaróvissu um að ólík lög í gildi segi mismunandi hluti.

Í úrskurði ráðuneytisins eru reifuð ýmis atriði úr rökstuðningi beggja aðila fyrir því hvers vegna sveitarfélagið eigi að smala eða ekki. Ráðuneytið segir hins vegar að upphafleg kæra snúi aðeins að málsmeðferðarhraðanum og tekur því enga afstöðu til þess hvort sveitarfélagið þurfi að smala eða ekki.

Um afgreiðsluna segir ráðuneytið að ekki sé fjallað um málsmeðferðarhraða í lögum um fjallskil en í stjórnsýslulögum segi að taka eigi ákvarðanir svo fljótt sem unnt sé. Enginn tími sé skilgreindur og því séu reglurnar afstæðar en horfa verið til þess hvað sé eðlilegur viðbragðsfrestur en líka huga að mikilvægi skjótrar úrlausnar fyrir málsaðila.

Ráðuneytið segir viðfangsefnið þess efnis að svara þurfi hratt til að koma í veg fyrir tjón af völdum dýranna. Eins sé það hagur mögulegra eigenda þeirra að greiða úr málum sem fyrst. Ekki gangi að á mánuði hafi ekki legið fyrir svar í málinu því þær tafir séu á engan hátt kæranda að kenna.

Ekkert sem réttlætti tafirnar


Þess vegna sé niðurstaðan að afgreiðsla beiðninnar hafi dregist umtalsvert umfram þann afgreiðslu tíma sem landeigandinn gat vænst, án þess að fyrir því lægju réttlætanlegar ástæður. Þannig hafi Fjarðabyggð brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga um hraða málsmeðferðar.

Ráðuneytið segir Fjarðabyggð ekki geta varið sig með því að réttaróvissa hafi verið fyrir hendi því taka verði ákvarðanir út frá þeim reglum sem í gildi séu hverju sinni. Ekki sé hægt að bíða eftir lögum eða leiðbeiningum sem mögulega séu á leiðinni. Þá telur ráðuneytið ástæðu til að taka sérstaklega fyrir orð Fjarðabyggðar um að afgreiðslu málsins hafi verið frestað eftir að töfin var kærð. Ekki gangi að nota slíkar ástæður sem leiði til enn frekari tafa.

Því er beint til sveitarfélagsins að ljúka málinu eins fljótt og auðið sé. Jafnvel þótt ekki séu lengur þær aðstæður sem leiddu til beiðninnar í byrjun þá þurfi samt að svara henni. Ráðuneytið óskar þess að verða upplýst um niðurstöðuna.

Fjarðabyggð óskaði þess síðasta sumar að á vettvangi Sambands sveitarfélaga á Austurlandi yrði fjallskilasamþykkt Austurlands endurskoðuð. Múlaþing frestaði því að samþykkja drög um reglur um smölun ágangsfjár, sem það var með í vinnslu, meðan sú vinna væri í gangi. Samkvæmt fundargerð stjórnar SSA frá í mars liggur fyrir samantekt um endurskoðunina sem kynnt verði sveitarfélögunum.

Úrskurður ráðuneytisis var lagður fram til kynningar á fundi bæjarráðs Fjarðabyggðar í gær. Ekki er frekar bókað um málið í fundargerð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.