Íbúar kröfðu bæjarfulltrúa svara um afstöðu sína til nýs íþróttahúss

Íbúar á Eskifirði vilja nota tækifæri til að fá nýtt íþróttahúss frekar en gera við núverandi byggingu þar sem mygla hefur fundist. Bæjarfulltrúar segja bæjarfélagið ekki hafa fjárhagslegt svigrúm til að ráðast í byggingu nýs húss um þessar mundir.

Tekist var á um leiðir til úrbóta á íbúafundi sem haldinn var á Eskifirði í fyrrakvöld. Sem kunnugt er hefur greinst mygla í bæði íþróttahúsinu og grunnskóla staðarins. Frekari rannsóknir eru fyrirhugaðar á báðum byggingum síðar í vetur til að meta umfang rakaskemmda. Íþróttahúsið hefur verið tekið úr notkun en mygluð rýmum í skólanum lokað.

Þeir íbúar sem töluðu á fundinum virtust þrýsta á að um að nýtt íþróttahús yrði byggt, frekar en að farið yrði í endurbætur á núverandi húsi, sem byggt er árið 1968. Meðal annars var því haldið að rými í húsinu væru „ógeðsleg“.

Þá mátti merkja á orðum íbúa að þeim hefðu staðurinn setið eftir í forgangsröðun verkefna samanborið við önnur byggðarlög, einkum Norðfjörð og Reyðarfjörð. „Þið ákveðið að byggja nýtt íþróttahús á Reyðarfirði. Hér er ónýtt hús, ekkert viðhald. Hvernig stendur á þessu? Hvernig finnst ykkur íþróttahússaðstaðan á Eskifirði samanborið við Reyðarfjörð, Fáskrúðsfjörð, Stöðvarfjörð?

Nýtt hús hefði kannski frekar átt að rísa hér en á Reyðarfirði. Það er sama með leikskólann. Þar vorum við færð afar í röðina því það voru fleiri óléttar konur á Reyðarfirði,“ sagði íbúi sem fyrstur talaði. Hann uppskar lófaklapp úr nær öllum salnum þegar hann sagði að réttast væri að byggja nýtt íþróttahús frekar en gera við núverandi.

„Reyðarfjörður fyrir sameiningu var að hverfa. Við höfðum fiskinn og vorum ágætlega stemmd. Kannski er best að kljúfa okkur út. Við færumst bara aftar og aftar í röðinni,“ sagði annar fundargestur. Síðar lýstu fundargestir því að sundurlyndi og skortur á samstöðu væru eitt helsta vandamál Fjarðabyggðar.

Eitt að vilja, annað hvað er hægt

Gengið var á bæjarfulltrúa, sem sátu fyrir svörum, með já/nei spurningum um hvort þeir vildu nýtt íþróttahús. Heilt yfir voru svörin þau að íþróttahúsið á Eskifirði væri það lakasta í Fjarðabyggð og þyrfti á veruleg viðhaldi að halda, ekki síst vegna myglunnar. Þeir vildu hins vegar bíða eftir frekari niðurstöðum á frekari skoðun hússins áður en þeir skæru úr um aðgerðir.

„Okkur finnst mikilvægt að gera þetta vel. Við getum svarað þessu þegar við höfum fengið öll gögn um hvað hægt er að gera. Eins og staðan er núna getum við ekki tekið afstöðu til þessa,“ sagði Stefán Þór Eysteinsson frá Fjarðalistanum. „Eitt er að vilja, annað hvað er hægt. Auðvitað vil ég nýtt íþróttahús en ég er ekki að segja að það sé framkvæmanlegt strax,“ sagði Þuríður Lillý Sigurðardóttir, Framsóknarflokki.

Jafnmargar sundlaugar og í Reykjavík

Ragnar Sigurðsson, Sjálfstæðisflokki, lagði út frá fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. „Það er ekki hægt að svara já eða nei um nýtt íþróttahús. Ef farið yrði í gerð slíks þá ætti það að rísa á Eskifirði. Lykilforsendan er að byrja að horfa á rekstur sveitarfélagsins og hagræða þar þannig við getum komið því við. Við getum ekki stöðugt fjölgað mannvirkjum og grafið okkur dýpri skurði í rekstrinum.

Til lengri tíma er kostnaðarsamt að sökkva 100-200 milljónum í skammtímalausnir ef framtíðarsýnin er að byggja nýtt. Hins vegar verður að horfa til þess að reksturinn er afskaplega erfiður. Að hluta til er sveitarfélagið rekið á yfirdráttarheimild. Við tökum 300 milljónir út úr hafnarsjóði næstu árin – áður en við gerðum okkur grein fyrir viðhaldsþörfinni á þessum húsum,“ sagði Ragnar og bætti við að forgangsraða yrði viðhaldi út frá því hvað sveitarfélagið hefði burði í.

Íbúar á fundinum spurðu út í möguleika á fjármögnun, til dæmis að Reyðfirðingar hefðu fengið sitt hús fyrri söluandvirði Rafveitu Reyðarfjarðar frekar en það rynni inn í sveitarsjóð. Þeir spurðu út í söluandvirði hlutabréfa Fjarðabyggðar í Hraðfrystihúsi Eskifjarðar fyrir rúmum 20 árum og fengu þau svör að það hefði verið nýtt til framkvæmda við skólann í tengslum við einsetningu hans. Í svörum Jóns Björns Hákonarsonar, bæjarstjóra, kom fram að kostnaður við húsið á Reyðarfirði hefði hækkað úr 380 í 450 milljónir. Það notast þó við eldri búningsaðstöðu.

Bæði hann og fleiri bæjarfulltrúar meirihlutans minntu á að Fjarðabyggð væri dreift sveitarfélag með skólum og fleiri mannvirkjum á sex stöðum. „Við rekum fimm sundlaugar, það er jafn mikið og höfuðborgarsvæðið,“ sagði Þuríður Lillý.

Hvergi stendur til að loka

Enginn bæjarfulltrúa talaði fyrir að loka neinum af þessum stofnunum. „Ef við fengjum þá hugmynd að loka skólunum værum við að setja fingurinn framan í þau samfélög,“ sagði Birgir Jónsson, Framsóknarflokki. „Ég myndi ekki vilja láta það verða mína arfleifð að loka grunnskólunum. Ég vil frekar sameina aðra þjónustu,“ bætti Þuríður Lillý við.

Ragnar talaði fyrir því að haldnir yrðu íbúafundir og íbúar fengnir í lið með bæjarstjórn til að forgangsraða og hagræða. Hann viðraði þó hugmyndir á borð við sameiningu yfirstjórna grunnskóla eða sameiningu tónskóla. Birgir minnti á að meira en helmingur útgjalda sveitarfélagsins færi til grunn- og leik meðan Ragnar talaði um að 72% útgjalda þess væri launakostnaður. Jón Björn svaraði að honum liði eins og hann hefði lent í tímavarpi og væri kominn á framboðsfund.

Hvað varðaði umræðuna um forgangsröðun leikskóla svöruðu Jón Björn og Ragnar að hvorki hefði til fjármagn né nóg af verktökum til að geta ráðist í leikskólana á Reyðarfirði og Eskifirði samtímis. Lengri biðlistar hefðu ráðið því að byrjað var á Reyðarfirði. Þá bætti Jón Björn við um reksturinn að sveitarfélagið hefði í kringum stóriðjuframkvæmdir tekið mikil lán til að byggja upp til að mæta fjölgun íbúa. Þar með væri það berskjaldaðra fyrir verðbólgu eins og nú. Þá hefði sveitarfélagið leitast við að selja eignir, svo sem gömlu Hulduhlíð, meðal annars til að spara í viðhaldi.

Fyrst að sjá hvort hægt sé að gera við

Arndís Bára Pétursdóttir, formaður íþrótta- og tómstundanefndar, var sú eina þeirra sem sat fyrir svörum sem á fundinum sagðist ekki vilja nýtt íþróttahúss. Hún skýrði það þannig að hún hefði ekki næg gögn til að segja já, fyrst þyrfti að sjá hvort hægt væri að laga núverandi hús. „Ég ætla að vera frökk og segja nei. Mér finnst við eigum fyrst að skoða það sem við eigum og hugsa hvað við getum gert. Akkúrat núna tel ég ekki þörf á nýju húsi, fyrst vil ég athuga þörfina. Mögulega breytist sú skoðun eftir einhverja mánuði.“

Arndís Bára stóð í ströngu á fundinum á köflum. Hún er bæði kennari og foreldri við Eskifjarðarskóla og var gagnrýnd fyrir að sýna sveitungum sínum ekki samhug. Hún minnti á að hún tilheyrði foreldrafélaginu og hefði sem slík tekið barn sitt úr starfi í íþróttahúsinu. Strax í byrjun fundar hafði Arndís reynt að stíga í orðaskipti milli bæjarfulltrúa og fundargesta með að biðja þá um að forðast frammíköll. Slíkt væri bannað í kennslustundum og í ljósi þess að börn væru í fundarsalnum væri mikilvægt að þau fullorðnu sýndu þeim hvernig samskipti ættu að fara fram.

Birgir, sem einnig býr á Eskifirði, sagðist fyrir um ári hafa verið beðinn um að sitja í starfshópi um nýtt íþróttahús staðarins. Hann sagði svörin hafa verið óljóst þegar hann spurði nákvæmlega hver þörfin væri á nýju húsi. Samkvæmt skipulagi er gert ráð fyrir íþróttauppbyggingu í botni fjarðarins, við sundlaugina, meðan íþróttahúsið er við hlið skólans inn í bænum. Birgir, sem var áður skólastjóri á Eskifirði, sagðist ekki sjá fyrir sér aðra staðsetningu íþróttahúss en við hlið skólans þar sem skólinn væri langstærsti notandi íþróttahúss og fjarlægðin gæti riðlað skólastarfi.

Bráðaaðgerðir alltaf nauðsynlegar

Íbúar þrýstu á um svör hver væri vendipunkturinn fjárhagslega í viðgerðum samanborið við nýframkvæmd. Ragnar svaraði að með hönnun og öðrum undirbúningi tæki nýframkvæmdin alltaf töluvert lengri tíma. Þörf væri á bráðabirgðaviðgerðum til að koma íþróttastarfi í gang. Jón Björn sagði starfsfólk skólans, skólastjórnendur og fræðslustjóri reyndu að finna lausnir á íþróttakennslu og aðgengi líkamsræktar fyrir Eskfirðinga. Nákvæmar lausnir lægju ekki fyrir um hvernig skólaárið yrði klárað. Arndís svaraði að með aðrar íþróttir væri málið á borði starfsmanns sveitarfélagsins í samvinnu við Ungmennafélagið Austra og þjálfara þess.

Íbúi brýndi sveitarfélagið til að læra af Nesskóla þar sem reglulega hefur þurft að grípa til nýrra aðgerða vegna myglu. Jón Björn sagði viljað hafa sumt af því fólki sem ynni með Fjarðabyggð nú með í Nesskóla frá upphafi því þá hefði mögulega komist að rótum vandans þar. Hann minnti á að mikil breyting hefði orðið á vinnubrögðum varðandi bæði rannsóknir og aðgerðir gegn myglu undanfarin ár.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.