Austfirskur fréttaannáll 2014 - Janúar

Article Index

lodnuskip sfk jan14 omarb 2Janúar:

Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað var kölluð út strax á nýársnótt til hjálpar ferðalöngum í vanda. Fyrstu fréttir ársins snérust um ófærð og rafmagnsleysi. Snjórinn var mikill og til viðbótar voru bílstjórar ósáttir við hálkuvarnir Vegagerðarinnar.

Úrkomumet var sett á nokkrum veðurstöðvum og á láglendi var mánuðurinn hlýr. Þrátt fyrir allan snjóinn og úrkomuna þurfti Fjarðaál að draga úr framleiðslu sinni þar sem ekki var nægt vatn í uppistöðulónum.

Línumenn Landsnets á Austurlandi voru nær stöðugt að störfum fyrstu vikur og mánuði ársins, oft við erfiðar aðstæður.

Hannesi Sigmarssyni, fyrrum yfirlækni í Fjarðabyggð, voru dæmdar 15 milljónir króna í bætur þar sem ekki var rétt staðið að uppsögn hans af hálfu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Fjármálaráðuneytið ákvað að áfrýja dóminum ekki til Hæstaréttar.

Persónuvernd setti ofan í við félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs sem hafði neitað að greiða út bætur til skjólstæðings nema hann skilaði þvagsýni til að sanna að hann væri ekki undir áhrifum lyfja.

Sautján norsk loðnuveiðiskip lágu hlið við hlið við mögulega bryggjukanta á Seyðisfirði. Þau leituðu skjóls undan brælu á miðunum. Loðnan lét annars vart sjá sig.

Nýr ós var grafinn fyrir Lagarfljót á Héraðssandi en fljótið hefur fært sig til norðurs síðustu ár og jökulvatnið ógnaði veiði í ferskvatnsám. Brimið lokaði ósinum hins vegar á nokkrum dögum. Nýr var svo grafinn í júní.

Norska fyrirtækið NorSeaGroup tilkynnti áform sín um að byggja upp þjónustu við mögulega olíuleit á Drekasvæðinu frá Vopnafirði.

Feðgarnir Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson voru valdir Austfirðingar ársins af lesendum Austurfréttar. Þeir björguðu fjölskyldu úr brennandi húsi í Hamarsfirði í nóvember.

Eigandi smáhunds í Neskaupstað, sem í þrígang hafi bitið fólk svo sár hlaust af, neitaði að láta aflífa hann. Austfirsk sveitarfélög breyttu síðar reglum sínum eftir að úrskurðarnefnd hafði úrskurðað hundaeigandanum í hag.

Tökur hófust á Fortiutude-spennuþáttunum sem eru viðamesta leikna þáttaröð sem Sky sjónvarpsstöðin breska hefur lagt í. Stórstjörnur á borð við Michael Gambon, Stanley Tucci og Luke Treadaway sáust á skokkinu á Austfjörðum. Margir buðu sig fram þegar leitað var eftir aukaleikurum af Austfjörðum. Framleiðendur þáttanna voru ánægðir með allt nema – eins einkennilegt og það hljómaði – snjóleysið!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.