Kosningum frestað

Í ljósi fordæmalausra aðstæðna í samfélaginu vegna útbreiðslu kórónaveirunnar COVID – 19 og samkomubanns sem tók gildi 16. mars er fyrirsjáanlegt að fyrirhuguðum sveitarstjórnarkosningum sem fram áttu að fara 18. apríl verði frestað. Verður það gert m.a. að höfðu samráði við Ríkislögreglustjóra og Sóttvarnalækni og er skiljanlegt nú þegar neyðarstig almannavarna er í gildi og mikil óvissa ríkir um framhaldið.

Undanfarnar vikur hafa verið annasamar hjá frambjóðendum Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi. Málefnahópar hittast reglulega og haldnir hafa verið fundir með sjálfstæðisfólki í sveitarfélögunum fjórum og hafa frambjóðendur fundið fyrir miklum meðbyr.

Kosningarnar sem um ræðir verða að mörgu leyti frábrugðnar hefðbundnum sveitarstjórnarkosningum. Þær fara fram á miðju venjulegu kjörtímabili sveitarstjórna sem þýðir að tæp tvö ár eru til næstu sveitarstjórnarkosninga. Þetta eru jafnframt fyrstu kosningarnar í nýju víðfeðmu sveitarfélagi og fyrir hluta íbúanna, í fyrsta sinn sem kosið verður eftir nokkuð hefðbundnum flokkslínum.

Þetta stutta kjörtímabil kemur til með að gera miklar kröfur til sveitarstjórnarfólks og starfsmanna sem munu þurfa á miklum stuðningi í sínum störfum að halda vegna sameiningarinnar og ekki síður breyttrar stjórnsýslu. Nýtt sveitarfélag verður brautryðjandi á mörgum sviðum og því mikilvægt að í sveitarstjórn veljist fólk með reynslu og ekki síður þekkingu á þeim breytingum sem í vændum eru.

Með heimastjórnum er ætlunin að tryggja meiri áhrif íbúa gömlu sveitarfélagana en venja hefur verið í öðrum sameiningum og auka slagkraft svæðisins t.d. í samskiptum við ríkisvaldið. Þessi markmið áttu eflaust stóran þátt í því hve stuðningurinn við sameininguna var afdráttarlaus. Ein af þeim áskorunum sem bíður nýrrar sveitarstjórnar er að tryggja að þessar hugmyndir gangi eftir á þann hátt sem lagt var upp með. Til þess þarf styrka stjórn, þekkingu á viðfangsefninu og reynslu.

En það þarf meira til. Auk þess að tryggja farsæla sameiningu verður hlutverk nýrrar sveitarstjórnar að leita leiða til að efla nýtt sveitarfélag, sjá til þess að það standi ekki í stað, heldur sæki markvisst fram á öllum sviðum. Tryggja verður grunnþjónustu við íbúa, stuðning við skóla og menningarlíf, atvinnulífinu samkeppnishæft rekstrarumhverfi og gefa frumkvöðlum og nýsköpun tækifæri til að vaxa.

Í okkar hópi er fólk sem hefur tekið virkan þátt í sameiningarferlinu og er tilbúið að vinna að þessum markmiðum. Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi hefðu verið tilbúnir 18. apríl og þeir verða tilbúnir þegar þar að kemur.

Höfundur skipar 1. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.