Orkumálinn 2024

Heimakennsla í móðurmáli jafnar ekki stöðu barna

Um leið og við þökkum formanni fræðslunefndar Fjarðabyggðar fyrir að vekja athygli á málstaðnum með því að svara grein okkar um mikilvægi móðurmálskennslu tvítyngdra barna sjáum við okkur knúnar til að svara. Í grein formannsins er eitt og annað sem við verðum að bregðast við:

1. Við héldum því aldrei fram að staðan væri öðruvísi í Fjarðabyggð en öðrum sveitarfélögum. En okkar tölulegu upplýsingar koma úr skólum Fjarðabyggðar enda kennum við í Fjarðabyggð, búum í Fjarðabyggð, greiðum útsvar í Fjarðabyggð og kjósum í Fjarðabyggð.

2. Formaðurinn bendir á að sums staðar hafi foreldrar brugðið á það ráð að taka að sér kennsluna. Við teljum vægast sagt á gráu svæði að slík ábending komi frá formanni fræðslunefndar því að slíkar lausnir eru til þess fallnar að draga enn frekar úr jafnrétti til náms. Er forsvaranlegt að stinga upp á því að nám barna sé háð hæfni og áhuga foreldra til að sinna kennslu þeirra? Eigum við von á fleiri hugmyndum úr þessari átt, þ.e. að foreldrar sinni kennslu sem sveitarfélög sinna ekki?

3. Formaðurinn vísar ítrekað í tungumálaver Laugalækjarskóla þar sem svo sannarlega er verið að gera frábæra hluti sem mætti svo vel nýta til að efla móðurmálskennslu tvítyngdra barna. Hvers vegna er þá ekki verið að því?

4. Ingibjörg skrifar greinina sem íslenskukennari en ekki sem varaþingmaður enda er galið af bæjarfulltrúa að ætlast til að varaþingmaður taki málið upp á Alþingi á sama tíma og hann er ekki að gera það sjálfur á vettvangi bæjarstjórnar. Það eru jú sveitarfélögin sem fara með mál grunnskólanna.

5. Formaður fræðslunefndar bendir á að fæst sveitarfélög bjóði tvítyngdum börnum upp á móðurmálskennslu. Slíka röksemdafærslu getum við ekki sætt okkur við, þ.e. að ef aðrir standi sig illa þá megum við líka gera það.

6. Einnig bendir formaðurinn á að þessi móðurmálskennsla sé „ekki lagaleg skylda sveitarfélaga.“ Hvaðan er sú túlkun komin? Í Aðalnámskrá grunnskóla er bent á mikilvægi þess að nemendur með annað móðurmál en íslensku viðhaldi og rækti móðurmál sitt og einnig er bent á að samkvæmt grunnskólalögum skuli „stefnt að virku tvítyngi þessara nemenda.“

Hvernig er hægt að stefna að virku tvítyngi án áherslu á móðurmálskennslu? Okkur er spurn!

Höfundar eru íslenskukennarar við Verkmenntaskóla Austurlands og Nesskóla


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.