Börn í Fjarðabyggð verða af tækifærum

Kennarar sem hafa starfað með nemendum af erlendum uppruna vita að grundvallarforsenda þess að læra íslensku er sterkur grunnur í móðurmálinu. Þrátt fyrir það fá nemendur með annað móðurmál en íslensku almennt ekki kennslu í sínu móðurmáli.

17% grunnskólanema í Fjarðabyggð fá ekki móðurmálskennslu

Samkvæmt Fjölskyldusviði Fjarðabyggðar eru 112 nemendur með annað móðurmál en íslensku eða 17% allra grunnskólanema. Helmingur þeirra eru með pólsku að móðurmáli. Enginn skóli í Fjarðabyggð býður upp á móðurmálskennslu í pólsku, eða öðru tungumáli en íslensku.

Við höfum starfað sem íslenskukennarar í 20 ár og tilfinning okkar er sú að fjöldi nemenda með slaka móðurmálskunnáttu eykst stöðugt. Þessir nemendur eiga erfitt með að fóta sig í námi og þegar þeir koma í framhaldsskóla verður þessi vandi enn meiri. Margir nemendur eru bæði illa læsir á íslensku og á móðurmálinu og eru því nánast móðurmálslausir. Þeir eiga mjög erfitt með að læra flókin hugtök og eru ekki aðeins í erfiðleikum í íslensku heldur einnig í öðrum námsgreinum. Þessir nemendur eru í sérstakri brottfallshættu.

Setjum peninga í málaflokkinn

Bæjaryfirvöld hafa hér brugðist. Það er með ólíkindum að móðurmálskennsla fyrir þennan hóp sé ekki fjármögnuð. Við teljum að það hljóti að vera hægt að fá hæfa pólskukennara í því fjölmenningarlega samfélagi sem Fjarðabyggð er. Í skólum Fjarðabyggðar eru nemendur frá 17 mismunandi löndum. Í mörgum tilfellum er hægt að sinna móðurmálskennslu í gegnum netið. Kennari sem talar t.d. ekki bosnísku, tælensku eða arabísku getur aðstoðað nemendur við nám í móðurmálinu á ýmsan hátt. Námsefni og lesefni er til fyrir öll tungumál.

Við getum ekki endalaust stungið höfðinu í sandinn og látið eins og vandinn sé ekki til staðar. Bæjaryfirvöldum í Fjarðabyggð ber skylda til að stuðla að jafnrétti til náms óháð uppruna og móðurmálskennsla barna með íslensku sem annað mál er þar lykilþáttur. Upp með hausinn Fjarðabyggð!

Höfundar eru íslenskukennarar við Verkmenntaskóla Austurlands og Nesskóla

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar