Austfirskir listamenn sýna í Ráðhúsi Reykjavíkur

Þrír austfirskir listamenn sýna verk sín í Ráðhúsi Reykjavíkur um næstu helgi. Eru það Ágústa Margrét Árnadóttir, Hólmfríður Ófeigsdóttir og Lára Vilbergsdóttir. Taka þær þátt í stórri sýningu á handverki, listiðnaði og hönnun, á vegum Handverks og hönnunar. Fimmtíu og fjórir einstaklingar voru valdir til að sýna verk sín, en umsóknir voru fjölmargar.

 

 

lra_vilbergsdttir.jpg

 

 

 

 

 

Lára Vilbergsdóttir er ein þriggja austfirskra listamanna með verk á sýningu Handverks og hönnunar í Reykjavík um helgina.

Á föstudag kl. 10:45 verða svokölluð Skúlaverðlaun 2008 afhent. Þeir sem valdir voru til þátttöku í sýningunni gátu tilnefnt verk frá sér í verðlaunasamkeppni um besta nýja hlutinn. Bárust yfir fjörtíu tillögur frá átján aðilum. Verðlaunin eru kennd við Skúla Magnússon fógeta, sem var frumkvöðull smáiðnaðar í Reykjavík, eins og segir í tilkynningu. Valnefnd um besta gripinn skipa Rut Káradóttir, innanhússarkitekt, og Stefán Pétur Sólveigarson, vöruhönnuður.

Sýningin stendur frá 31. október til 3. nóvember næstkomandi. Unnt er að kynna sér fólkið sem á verk á sýningunni í Ráðhúsinu á vefnum www.handverkoghonnun.is.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar