Knattspyrna: Fjarðabyggð kláraði Selfoss í fyrri hálfleik

fotbolti kff leiknir bikar 0022 webAustfirsku liðin áttu leiki um helgina í 1., 2. og 3. deild karla og gengu viðureignirnar misvel hjá liðunum eins og gengur og gerist. Þá voru austfirsku liðin í C-riðli 1. deildar kvenna einnig í eldlínunni.

Fjarðabyggð hélt áfram góðu gengi sínu í 1. deildinni með sannfærandi 2-0 sigri gegn Selfoss. Fjarðabyggð voru miklu betri í leiknum og skoruðu tvö mörk í fyrri hálfleik, sem dugðu til sigurs. Hafþór Þrastarson skoraði fyrra markið á 37. mínútu og Nik Anthony Chamberlain bætti við öðru marki þremur mínútum síðar.

Fjarðabyggð stjórnaði leiknum allan tímann og Selfyssingar náðu ekki að skapa sér nein alvöru færi. Fjarðabyggð heldur því áfram að sanka að sér stigum af krafti og sitja þeir í 3. sæti deildarinnar eftir 7 umferðir. Deildin er fremur tvískipt nú þegar línur eru aðeins farnar að skýrast og virðist lið Fjarðabyggðar alveg eins líklegt til að blanda sér af alvöru í baráttuna um Pepsi-deildar sætin tvö sem eru í boði.

Leiknir og Huginn áfram við toppinn – Einherji vann mikilvægan sigur

Í gær mættust Leiknir og KV í Fjarðabyggðarhöllinni. Leiknum lauk með 2-2 jafntefli, en Leiknismenn voru manni færri frá 51. mínútu, þegar Paul Nicolescu fékk beint rautt spjald eftir baráttu við framherja KV, sem var að sleppa í gegn.

KV komust yfir með skallamarki á 29. mínútu en Björgvin Stefán Pétursson jafnaði leikinn á 43. mínútu. KV komust svo aftur yfir skömmu eftir að Leiknismenn urðu manni færri en Julio Martinez tryggði Leiknismönnum jafntefli með marki á 67. mínútu.

Hattarmenn töpuðu 0-2 gegn KF á Fellavelli á laugardag. Hattarmenn fengu fín færi í fyrri hálfleik og áttu meðal annars tvö skot í tréverkið. Í síðari hálfleik skoruðu gestirnir hins vegar tvö mörk og Hattarmenn náðu ekki að svara því.

Huginn sigraði Njarðvík 0-1 á útivelli á laugardag. Fernando Calleja skoraði mark Hugins um miðjan síðari hálfleik og tryggði þeim stigin þrjú.

Leiknir og Huginn eru á góðu skriði í 2. deildinni og eru í þriggja liða pakka ásamt ÍR sem hafa stungið hin liðin aðeins af í upphafi móts. Hattarmenn eru hinsvegar í sjötta sæti deildarinnar með 9 stig, hafa unnið þrjá leiki en tapað fjórum.

Einherjamenn náðu í gríðarlega mikilvæg þrjú stig í 3. deildinni þegar þeir sigruðu Völsung 3-2 á Vopnafirði á föstudagskvöld. Sigurður Donys skoraði fyrsta mark leiksins á 16. mínútu en Húsvíkingar svöruðu um hæl með tveimur mörkum. Heiðar Aðalbjörnsson jafnaði metin fyrir Einherja á 37. mínútu og leikurinn var jafn þangað til fimm mínútur lifðu leiks. Þá skoraði Gunnlaugur Bjarnar Baldursson þriðja mark Einherja og þar við sat.

Einherjamenn eru núna í 6. sæti deildarinnar með 8 stig og eiga leik eða leiki til góða á flest liðin í kringum sig.

Fjarðabyggð sigraði grannaslaginn

Það var grannaslagur á Fellavelli síðasta fimmtudagskvöld, þegar Höttur tók á móti Fjarðabyggð í C-riðli 1. deildar kvenna. Leiknum lauk með 1-2 sigri gestanna úr Fjarðabyggð, en öll mörk leiksins komu í síðari hálfleik. Freyja Viðarsdóttir og Hafrún Sigurðardóttir komu Fjarðabyggð í 0-2, en Natalía Gunnlaugsdóttir minnkaði muninn fyrir Hött í uppbótartíma.

Einherjastelpur fóru á Akureyri á laugardag og lutu í lægra haldi fyrir liði Hamranna, 4-0. Austfirsku liðin raða sér því í þrjú neðstu sæti deildarinnar, Fjarðabyggð í 5. sæti með 6 stig, Einherji með eitt stig í sjötta sæti og Hattarstúlkur sitja á botninum án stiga.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar