Knattspyrna: Öruggur sigur Vals á Fjarðabyggð

fotbolti kff valur bikar kk 0009 webFjarðabyggð er úr leik í bikarkeppni karla í knattspyrnu eftir 0-4 tap gegn úrvalsdeildarliði Vals í Fjarðabyggðarhöllinni í gær. Höttur og Fjarðabyggð gerðu markalaust jafntefli í fyrstu deild kvenna.

Leik Fjarðabyggðar og Vals var seinkað um kortér vegna óhóflega bjartsýnnar ferðaáætlunar Valsmanna sem komu með kaffivélinni austur í Egilsstaði og lentu um klukkustund fyrir leik.

Þeir fengu samt nægan tíma til að hita upp og tóku völdin í leiknum strax á fyrstu mínútu. Þeir héldu boltanum en Fjarðabyggð bakkaði. Langar sendingar fram, ætlaðar Brynjari Jónssyni, misstu hins vegar almennt marks og varnarmenn Vals svitnuðu ekki af þeim.

Fyrsta markið kom strax á fimmtándu mínútu þegar Kristinn Freyr Sigurðsson skoraði eftir góða stungusendingu Patricks Pedersen. Kile Kennedy varði reyndar fyrra skot Kristins en boltinn hrökk aftur í hann og þaðan í netið.

Daði Bergsson skoraði annað mark Vals á 40. mínútu. Aftur varði Kile fyrra skotið en boltinn féll fyrir Daða sem kallaði boltann inn.

Valsmenn fengu fleiri fín færi í fyrri hálfleik, einn skala í slá og annað færi fyrir Pedersen. Besta tilraun Fjarðabyggðar í hálfleik var langskot Nik Chamerlain sem var varið í horn.

Leikurinn var búinn eftir fimm mínútur í seinni hálfleik þegar Kristinn Freyr vann boltann af Hector Pena Bustamante, miðverði Fjarðabyggðar, í teignum og renndi honum á Pedersen sem skoraði þriðja mark Vals.

Valsmenn áttu síðan tvö stangarskot áður en Haukur Ásberg Hilmarsson skoraði fjórða markið í uppbótartíma eftir sprett varnarmannsins Thomasar Gristensen upp völlinn.

Strax eftir þriðja mark Vals var Nik skipt út af en hann er þjálfari kvennaliðs Fjarðabyggðar sem mætti Hetti á Fellavelli í leik sem hófst tæpum tveimur tímum á eftir karlaleiknum.

Fjarðabyggð gekk heldur betur þar því stelpurnar fóru heim með 1-2 sigur. Freyja Viðarsdóttir skoraði fyrra mark þeirra með langskoti um miðjan seinni hálfleik og Hafrún Sigurðardóttir það næsta úr vítaspyrnu kortéri fyrir leikslok. Natalía Gunnlaugsdóttir minnkaði muninn fyrir Hött með marki í uppbótartíma.

Einherji tekur á móti Völsungi í kvöld í þriðju deild karla í leik sem hefst klukkan 20:00.

Í annarri deild tekur Höttur á móti KF á morgun á Fellavelli klukkan 16:00 og Leiknir á móti KV klukkan 15:30 í Fjarðabyggðarhöllinni á sunnudag. Huginn heimsækir Njarðvík á morgun.

Í fyrstu deild karla tekur Fjarðabyggð á móti Selfoss í leik sem hefst klukkan 13:00 á sunnudag.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.