Knattspyrna: Fjarðabyggð örugglega áfram í Borgunarbikarnum

fotbolti kff njardvik 18082014 0068 webFjarðabyggð tryggði sig í kvöld áfram í 16-liða úrslit Borgunarbikars karla með öruggum 4-0 sigri á 3. deildarliðinu Kára frá Akranesi. Leikið var á Norðfjarðarvelli.

Fjarðabyggð komst yfir þegar einungis 4. mínútur voru liðnar. Þá komst Brynjar Jónasson einn innfyrir og kláraði af öryggi. Fjarðabyggð bætti síðan við öðru marki á 29. mínútu eftir fallegt spil. Víkingur Pálmason sendi þá glæsilega sendingu fyrir markið á Ólaf Örn Eyjólfsson sem skoraði.

Ekki voru fleiri mörk skoruð í fyrri hálfleik. Káramenn gáfu Fjarðabyggð ekkert eftir þrátt fyrir að vera tveimur deildum neðar og hart var barist, samkvæmt atvikalýsingu fótbolta.net.

Á 54. mínútu fiskaði Brynjar Jónasson víti, fór sjálfur á punktinn en markvörður Kára varði vel. Fjarðabyggð bætti ekki við öðru marki fyrr en á 79. mínútu. Þá skoraði Ingvar Ásbjörn Ingvarsson og aftur var það Víkingur Pálmason sem lagði upp markið.

Fréttaritari fótbolta.net greinir frá því að þegar um tíu mínútur lifðu leiks hafi áhorfendur á vellinum komið auga á hval á hafi úti og má telja líklegt að það hafi vakið lukku. Fátt merkilegt gerðist hinsvegar inni á vellinum fyrr en á 89. mínútu, þegar Viðar Þór Sigurðsson þrumaði knettinum í markið eftir sendingu frá Martin Sindra Rosenthal og fullkomnaði öruggan 4-0 sigur Fjarðabyggðar.

32-liða úrslit Borgunarbikarsins halda áfram á morgun, en þá fara Hattarmenn til Reykjavíkur og leika gegn Pepsi-deildarliði Víkings.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar