Árangursmælingar lagðar til hliðar á Ávaxtamóti UÍA

avaxtaleikar5Mikið fjör var í íþróttahúsinu á Fáskrúðsfirði á sunnudaginn, þar sem árlegir Ávaxtaleikar UÍA voru haldnir.

Frjálsíþróttaráð UÍA stendur að mótinu, en í því er áhersla lögð á þrautir og leiki þar sem þátttakendur vinna saman í hópum, í stað hefðbundinnar keppni. Metþátttaka var í ár, en um 70 börn á aldrinum 2-10 ára víðsvegar að Austurlandi tóku þátt.

Hildur Bergsdóttir, framkvæmdastýra UÍA segir þetta form gefast vel og þátttakendum á leikskólaaldri hafi fjölgað til muna í ár.

„Við ákváðum að leggja allar árangursmælingar á borð við málbönd og skeiðklukkur alfarið til hliðar í ár," segir Hildur og útskýrir hvers vegna; „Ég átti augnablik á leikunum í fyrra, þar sem ég var með málbandið á lofti og boltanum kastar lítil stelpa sem enn var með snuddu og bangsa. Hún kastaði 28 sentimetra. Ég hugsaði með mér fyrir hvern ég væri eiginlega að mæla? Þessi aldur á svo sannarlega skilið að fá bara að leika sér og hafa gaman, ekki að allt snúist um árangursmælingar."

Hildur er afar þakklát þeim fjölda sjálfboðaliða sem lagði hönd á plóg við framkvæmdina. „Þeir eiga bæði hrós og þakkir skildar og án þeirra væri ógjörningur að halda leikana."

avaxtaleikar1avaxtaleikar2avaxtaleikar3avaxtaleikar4avaxtaleikar5

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar