Leikir helgarinnar: Höttur getur komist á toppinn í fyrstu deild kvenna

hottur kff kvk 01062014 dsoHöttur getur komist í efsta sæti B-riðils fyrstu deildar kvenna þegar liðið tekur á móti Álftanesi. Gestirnir leika tvo leiki á Austurlandi um helgina. Huginn á heimaleik í annarri deild karla og Einherji í þriðju deildinni þar sem Höttur og Leiknir hvíla.

Leikur Hattar og Álftaness hefst á Vilhjálmsvelli klukkan 20:00 í kvöld og er fyrsti leikurinn á vellinum í sumar. Höttur og Álftanes eru ásamt Þrótti og Fram í 2. – 5. sæti með sex stig en Höttur hefur aðeins leikið tvo leiki og með langbestu markatöluna, 13-0. KR er efst með níu stig úr þremur leikjum.

Álftanes heimsækir síðan Fjarðabyggð á Norðfjarðarvöll á sunnudag klukkan 14:00. Fjarðabyggð er á hinum enda töflunnar, neðst og án stiga eftir fjóra leiki. Liðið tapaði 2-1 fyrir Sindra á Höfn í vikunni þar sem Andrea Magnúsdóttir minnkaði muninn fyrir Fjarðabyggð.

Huginn tekur á móti ÍR á Seyðisfjarðarvelli klukkan 14:00 á morgun í annarri deild karla og Fjarðabyggð heimsækir Njarðvík í leik sem hefst klukkustund fyrr. Fjarðabyggð er í þriðja sæti með tíu stig en Huginn í því fjórða með níu stig. Bæði lið hafa spilað fimm leiki. ÍR er í öðru sæti deildarinnar en Njarðvík neðst án stiga.

Í þriðju deild karla tekur Einherji á móti Hamri á Vopnafjarðarvelli klukkan 14:00 á sunnudag. Gestirnir eru neðstir í deildinni og án stiga. Efst eru Höttur og Leiknir sem eru í fríi um helgina. Einherji er í sjöunda sæti með fjögur stig úr jafn mörgum leikjum.

Mynd: Dagur Skírnir Óðinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar