Yfirheyrsla; „Hvert verk er sneiðmynd af hugsanagangi hvers dags“

„Ég fékk hugljómun um að nota hringlaga form, en það opnaði alveg nýja vídd í listsköpuninni fyrir mig,“ segir listamaðurinn Odee, eða Oddur Eysteinn Friðriksson, sem opnar sýningu í Gallerí Fold í dag. Hann er í yfirheyrslu vikunnar.


„Hugmyndin kviknaði í kjölfar verkefnis sem ég vann fyrir Heilsuvernd. Hvert verk er svipmynd af þeim degi sem það er skapað og öll verkin eru samsettar klippimyndir úr menningu sem hefur haft mótandi áhrif á mig á einn eða annan hátt. Þessar táknmyndir úr menningunni flétta ég saman í skipulagða óreiðu sem ég leik mér sér svo með,“ segir Odee.

Verkin á sýningunni eru brædd í álplötur í New York með sérstakri tækni. Platan og blekið er hitað upp þannig að blekið umbreytist í gas og smýgur inn í yfirborð álsins. Síðan er verkið húðað með glærri filmu sem verndar bæði og gefur fallega áferð.“

Aðspurður að því hvað sé næst á dagskrá hjá Odee segir hann; „Það er fatahönnun, sjáum hvað kemur út úr því.“

Fullt nafn: Oddur Eysteinn Friðriksson.

Aldur: 35.

Starf: Listamaður.

Maki: Ólöf Þóra.

Börn: Ýmir Kaldi, Þrymur Blær og stjúpbörnin Markús Máni og Matthildur María.

Ef þú gætir öðlast yfirnáttúrulegan kraft, hver væri hann? Ég er með kraft, ég er tímaeyðir.

Hvað er list? Fyrir mér verður eitthvað list um leið og einhver sannarlega metur eitthvað sem list.

Hvernig koma hugmyndirnar til þín? Hvert verk er sneiðmynd af hugsanagangi hvers dags. Ég kafa innávið og sæki hugmyndir þegar ég sest niður að vinna og leyfi huganum að reika. Stundum fæ ég líka uppljómun í daglegu lífi.

Uppáhalds matur? Þessa dagana er það gula hrökkkexið í Krónunni með smjöri, avocado, rauðlauk og eggi.

Hvaða árstíð heldur þú mest upp á og af hverju? Sumarið er tíminn, sannarlega búinn að njóta þess þetta árið.

Hvað er það merkilegasta sem hefur gerst í heiminum á þínum líftíma? Mér finnst nú #metoo byltingin vera ansi merkinleg, vona að það hafi áhrif til framtíðar.

Hvað í hegðun hins kynsins ruglar þig mest? Get ekki fundið neitt sem mér finnst ekki geta gilt um bæði kynin.

Hvaða ósið hefur þér reynst erfiðast að hætta? Hlægja þegar ég prumpa.

Hvaða viðburð sérðu mest eftir að hafa misst af? Man ekki eftir neinu.

Hver er þinn helsti kostur? Úrræðagóður.

Hver er þinn helsti ókostur? Morgunfúll.

Hver er þín helsta fyrirmynd? Ég á mér margar fyrirmyndir, fer eftir því á hvaða sviði. Ömmur mínar heitnar voru til dæmis frábærar fyrirmyndir fyrir að vera duglegar og góðlyndar.

Ef þú gætir breytt einhverju í heiminum? Eyða mannvonsku.

Topp þrjú á þínum „bucket list“? Fara til suðurríkjanna og keyra um. Fara á Monster Truck, Wrestling og fleira redneck stöff.

Fyrsta æskuminning? Horfa á barnatímann hjá ömmu, Gúliver í Putalandi.

Hvað ætlaðir þú að verða þegar þú varst lítill? Uppfinningamaður.

Ef þú fengir að hitta hvaða persónu úr mannkynssögunni sem væri, hver yrði fyrir valinu? Leif Heppna.

Besta bíómynd allra tíma? Ther will be blood er í uppáhaldi.

Framtíðaráform? Listamannast og njóta lífsins með fjölskyldunni.

Verkin þín hafa verið umdeild, hvaða áhrif hefur það á þig? Það er ánægjulegt að fólk ræði listina.

Hvað er rómantík? Einlægni og stuðningur við hvort annað.

Tæknibúnaður? Iphoninn sennilega mest notað.

Hvað ætlar þú að gera um helgina? Halda sýningu í Fold og eyða tíma með nánustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar