Ævintýramenn frá Liechtenstein sendu þyrluna heim með Norrænu

thyrla_norrona_0017_web.jpg

Tveir ævintýramenn frá Liechtenstein, sem ferðast hafa um Ísland undanfarnar fimm vikur á þyrlu, héldu heim á leið með Norrænu í gær. Þyrlan fór um borð eins og hvert annað ökutæki. Þeir völdu frekar afslappandi leið heldur en erfiða leið yfir hafið til Færeyja eins og þegar þeir komu.

 

„Starfsfólk Smyril-Line var hissa en sagði okkur að það væri hægt að ferja þyrluna með ferjunni, það hefði verið gert áður,“ segir Markus Nescher, tæplega sextugur áhugaljósmyndari. „Þyrlan er á stærð við húsbíl, um 12 metra löng með spöðunum og það er hægt að setja hjól undir hana og draga eða ýta.“

Markus hefur verið ásamt hinum 23ja ára gamla flugmanni Matthias Vogt á Íslandi síðan 29. júlí síðastliðinn. Þá flugu þeir frá Færeyjum til Hafnar í Hornafirði en það er ferð sem ekki hver sem er hefði lagt út í.

„Við höfðum eldsneyti sem dugði til að fljúga í 3 tíma og 40 mínútur. Á leiðinni var spáð hvassviðri og við þurftum að gera góða flugáætlun svo við hefðum nægar eldsneytisbirgðir ef eitthvað færi úrskeiðis.“

Við tókum ekki áhættu, við vorum einfaldlega við öllu búnir 
 
Þeir flugu hægt og voru rétt tæpa þrjá tíma á leiðinni. Eftir einn og hálfan tíma var staðan tekin og metið hvort fljúga hætti aftur til Færeyja eða taka sénsinn á að komast alla leið. Tvímenningarnir voru við öllu búnir.

„Við vorum búnir að ræða okkar á milli um hvað við gerðum ef við lentum í sjónum og æfa okkur. Við flugum í flotgöllunum og vorum með neyðarsenda og staðsetningartæki,“ segir Matthias.

„Við tókum ekki mikla áhættu, við vorum einfaldlega við öllu búnir, bara svo fólk haldi ekki að við séum of brjálaðir!“ segir hann hlægjandi.

Fylla á þyrluna á bensínstöðvum 
 
Á einum mánuði hafa þeir náð að verða heimsfrægir á Íslandi. Á þyrluna er notað 95 oktana bensín og hafa þeir einfaldlega lent og fyllt á hana á þeim bensínstöðvum sem næstar þeim eru. Myndband sem tekið var af þeim við eina slíka áfyllingu hefur vakið mikla athygli.

„Það þekkja okkur næstum allir Íslendingar. Það sem hefur komið okkur á óvart er hversu vel og hlýlega fólkið hefur tekið á móti okkur,“ segir Markus og Matthias útskýrir að þetta þekkist ekki í Sviss. „Þar vill fólk ekki að þú komir nálægt bensínstöðinni með þyrluna. Því finnst alltof mikill hávaði í henni.“

Þeir völdu að taka ferjuna til Danmerkur og fljúga þaðan heim. Sá ferðamáti sé síður taugatrekkjandi. „Það var óþægilegt að fljúga hingað. Þótt við færum varlega þá var hugsunin um að þetta gæti farið illa alltaf til staðar í kollinum á manni,“ segir Markus.
 
Þyrlan dregin um borð í Norrænu í Seyðisfjarðarhöfn í gær. Matthias ýtir á eftir og stýrir þyrlunni. Mynd: Markus Nescher 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.