Atvinnuviðtalið tók þrjár mínútur
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 14. maí 2024 16:05 • Uppfært 14. maí 2024 16:08
Hrafndís Bára Einarsdóttir tók fyrir um ári við stjórn Hótels Stuðlagils, sem er í því húsnæði sem áður tilheyrði barnaskólanum á Skjöldólfsstöðum á Jökuldal. Hún segist ekki hafa verið lengi að ákveða sig þegar boðið kom.
Hrafndís Bára er ættuð af Jökuldal og alinn upp eystra þótt hún hafi undanfarin ár búið á Akureyri. Hún segist hafa verið þar í endurhæfingu eftir örmögnun og áfallastreituröskun þegar frænka hennar hringdi í hana með þau skilaboð að hún hefði, í félagi við fleiri, keypt sér eitt stykki sveitahótel og vantaði hótelstjóra – sem þyrfti helst að gera gott betur en halda dampi.
Hrafndís Bára segir símtalið hafa tekið þrjár mínútur. Hún hafi síðan hellt sér í vinnuna. „Það skemmst frá því að segja að við vissum ekkert hvað við vorum að fara út í. Þannig að við keyrðum á þetta, opnuðum fyrir bókanir tæpum mánuði eftir að við tökum við og þetta hefur rúllað síðan mjög bærilega.“
Ekki alls staðar sátt við nafnið
Frá Skjöldólfsstöðum inn að Stuðlagili sjálfu eru um 20 km. Þá telst gilið vera á Efra-Jökuldal en ekki Jökuldal. Hrafndís segir þetta hafa vakið deilur innan sveitarinnar.
„Þetta ýfði nokkrar fjaðrir hér á svæðinu enda erum við ekki alveg í námunda við gilið þannig að sumum fannst við beinlínis hafa stolið einhverju. En þetta lá ósköp beint við því það er ekki mikið af gistiaðstöðu hér í grenndinni og hugmyndin með að taka við hótelinu og bæta þjónustuna er einmitt að reyna að fá ferðamanninn til að staldra hér lengur við en hann hefur gert.
Nýta svokölluð samlegðaráhrif frá nærumhverfinu. Nafn Stuðlagils er orðið vel þekkt og hér veitum við þjónustu sem ferðalangar fá ekki enn annars staðar í dalnum.
Þetta þýðir vonandi bara meiri uppgrip hjá fólki hér því ef ferðamaðurinn stoppar lengur þá fer hann kannski að skoða meira og hér er kappnóg af fallegum náttúruperlum fyrir utan Stuðlagil. Svo ekkert sé minnst á flottar gönguleiðir og merka staði eins og Sænautasel. Það ætti vel að vera hægt að fá ferðamenn til að eiga hér dagstund eða tvær en þá þarf hann gistingu og þjónustu með.“
Sundlaugin úr sér gengin
Töluverðar framkvæmdir hafa verið á Skjöldólfsstöðum síðan nýir eigendur tóku við og tími kominn á viðhald. Sundlaugin, sem flutt var frá Egilsstöðum árið 1996, telst það illa farin að ekki svari kostnaði að gera við hana.
„Það var mikil synd með sundlaugina, sem var nú aldeilis haft fyrir að setja hér niður á sínum tíma,“ segir Hrafndís. „Það kom bara fljótt í ljós að lagnir og kútar voru úr sér gengnir og farið að molna og stórsjá á lauginni sjálfri. Það einfaldlega svarar engum kostnaði að reyna að koma henni til horfs sem mér finnst afar miður.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.