Vildi fá útrás fyrir nördinn í sér

„Ég lá á internetinu og fann út hvernig ég gæti gert þetta með hlutum héðan og þaðan úr heiminum. Pantaði þá, prófaði að lóða saman og útkoman varð Svarti sauðurinn,“ segir Sigrún Júnía Magnúsdóttir, margmiðlunarhönnuður og bóndi á Tjarnarlandi á Fljótsdalshéraði, hefur komið í sölu örmerkjalesara sem auðveldar alla skráningu á sauðfé.


Svarti Sauðurinn er örmerkjalesari sem tengist þráðlaust við snjalltæki sem eru með Android stýrikerfið. Svarti Sauðurinn virkar eingöngu með LAMB snjallforritinu, en saman auðvelda kerfin skráningarvinnu og minnka líkur á villum. LAMB auðveldar svo alla skráningu í Fjárvís.

Sigrún er menntaður margmiðlunarhönnuður, prentsmiður og er mikil áhugakona um tölvur og tækni. Hún býr á Tjarnarlandi í Hjaltastaðaþinghá ásamt manni sínum Einari Kristjáni Eysteinssyni og syni þeirra Eysteini Hilmari. Á Tjarnarlandi eru 340 vetrarfóðraðar ær og eru allir gripir örmerktir.

Sigrún segir að hugmyndin af Svarta sauðinum hafi kviknað fyrir rúmum tveimur árum. „Mig langaði að athuga hvort að ég gæti ekki búið til ódýrari örmekjalesara en þeir sem voru nú þegar til á markaðnum og einnig til þess að fá smá útrás fyrir nördinn í sjálfri mér.“

Sigrún lagðist í mikla rannsóknar- og þróunarvinnu og situr á kvöldin með lóðbolta að vopni og lóðar saman íhlutina í lesara með aðstoð Einars sem sér um umbúðir.

Stöðug þróunarvinna
Sigrún segir Svarta sauðinn hafa verið í sífelldri þróun frá því hann leit fyrst dagsins ljós, frá því vera snúrutengur við tölvu, yfir í það að að vera þráðlaus og og tengist beint við LAMB snjallsímaforrit. „Já, það fór ekki vel að vera með hann tengdan við snúru, en eitt lambið stökk á snúruna með þeim afleiðingum að allt slitnaði og ekki var gert meira þann daginn í vigtun.“

Einar segir það verði sífellt algengara að bændur nýti sér sambærilega tækni í dag. „Þetta á bara eftir að aukast, maður er að sleppa við svo mikið af skriffisku og óþarfa handtökum, það þarf ekki lengur að margskrifa sömu töluna og fækkum þar af leiðandi villum og bókhaldið verður réttara og skilvirkara.“

Í dag er Svarti sauðurinn þráðlaus og kominn í sölu um land allt, en allar upplýsingar um hann er hægt að nálgast hér.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.