„Við erum ekkert að reyna að ganga fram af hlustendum”

„Einhvernveginn þróaðist bókaklúbbur okkar vinkvennanna, sem haldið er úti landshorna á milli, í hlaðvarp,” segir Birna Ingadóttir á Reyðarfirði, sem ásamt tveimur vinkonum sínum er með hlaðvarpsþáttinn Ískisur á Storytel þar sem þær deila umræðum sínum um Ísfólkið, létterótísku bókaseríuna sem tröllreið íslensku samfélagi á 9. áratuginum.„Venjulegur vinahópur stofnar kannski bara bókaklúbb og á umræður í stofunni heima en okkur fannst okkar umræður svo frábærar að alþjóð þyrfti að fá tækifæri til að upplifa þetta með okkur. Nei, kannski ekki alveg, en þetta þróaðist í það minnsta í þessa átt. Ég bjóst reyndar aldrei við að þetta færi neitt utan hópsins og ég var svo spéhrædd fyrst að ég gat ekki einu sinni hlustað á útgefna þætti,” segir Birna.

„Við vorum búnar að vera með hlaðvarpið Ískisur í um tvö ár hjá Alvarpi Nútímans. Bækurnar um Ísfólkið voru einskonar Game of Thrones síns tíma, þær gengu á milli fólks og allir spenntir fyrir þeirri næstu. Ég las fyrstu Ísfólksbókina þegar ég var unglingur og fór svo hjá mér að ég gat varla klárað hana. Við vorum svo einhverntíman að ræða þetta, þrjár vinkonur úr verkfræðinni, þar sem í ljós koma að engin okkar hafði lesið þennan fræga bókabálk. Hlutirnir æxluðust því þannig að við, hvorki með bókmennta- né íslenskubakgrunn, stofnuðum bókaklúbb um málið og fórum að taka hann upp og viti menn, einhverjum þótti gaman að hlusta á vitleysuna í okkur,” segir Birna, sem er með en auk hennar skipa þær Kristín Stefánsdóttir og Helga Ingimundardóttir.

Allir og amma þeira geta hlaðið upp efni
Hlaðvarp er vaxandi miðill og hefur Birna sjálf mikið hlustað á hlaðvarpsþætti síðan árið 2007. „Þetta er svo aðgengilegt og þægilegt, en allir og amma þeirra geta tekið upp efni og komið því auðveldlega á framfæri. Í fyrstu voru einungis erlend hlaðvörp í boði en í kringum 2014 byrjaði fyrsti sjálfstæði íslenski hlaðvarpsþátturinn, sem var óháður útvarpi, en núna eru þeir orðnir fjölmargir.”


Útgáfusamningur hjá Storytel
Ískisurnar færðu sig yfir á Storytel í byrjun mars. „Storytel hafði samband við okkur fyrir jól og bauð okkur útgáfusamning. Okkur fannst það mjög spennandi tækifæri, en Storytel er meðal annars með Ísfólksbækurnar á hljóð- og rafbókaformi þannig að segja má að um „sameiginlegt áhugamál” hafi leitt okkur saman. Við ímyndum okkur að við náum til fleiri aðdáanda Ísfólksins á nýjum vettvangi. Svo erum við aðeins meira „keppnis”núna, stelpurnar fyrir sunnan taka upp í hljóðveri og við erum komnar með tæknimann sem er algjör lúxus,” segir Birna sem hringir yfirleitt inn í þættina frá Reyðarfirði.

Aðspurð hvort Ískisur fái mikla hlustun eða fái viðbrögð við þáttunum segir Birna; „Sko, við höfum aðallega staðið í þessu því okkur finnst þetta alveg ótrúlega skemmtilegt sjálfum. Einhverntíman fengum við grófa hlustendatölu frá Alvarpinu sem kom okkur allavega skemmtilega á óvart. Nú erum við nýbyrjaðar hjá Storytel og satt að segja höfum við ekki spurt út í hlustunina ennþá.

Við fáum alveg reglulega viðbrögð, en það er þá oftar en ekki til að leiðrétta einhverja vitleysu sem við höfum sagt. En það hefur verið innanhússbrandari Ískisa að tala til beggja aðdáanda okkar sem eru virkastir á samfélagsmiðlunum okkar,” segir Birna.


Ræða ekki um eigin reynslu í rúmfræði
Í lýsingum á Ískisunum á Storytel segir meðal annars; „Ísfólkið er létterótískur bókabálkur og þar af leiðandi er stundum rætt hispurslaust um kynlíf og önnur viðkvæm málefni í þættinum.”

„Nú veit ég ekki hversu vel fólk þekkir innihald bókanna almennt, en í þeim eru heldur erótískar lýsingar á samlífi eða draumórum sögupersónanna sem okkur finnst við ekki getað sleppt að ræða um. Við erum ekkert að reyna að ganga fram af hlustendum eða að ræða um eigin reynslu í rúmfræðum heldur einfaldlega fylgja söguþræði bókanna,” segir Birna, en þær stöllur munu fara yfir allar 47 bækurnar og fjalla um söguhetjurnar og og atburði út frá nútímagildum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar