Vestfirðingar yfirtaka Bræðsluna: Mugison og Fjallabræður

braedslan_2011_0041_web.jpg
Vestfirðingar verða svo fyrirferðamiklir á Bræðslunni í sumar að Borgfirðingar eru farnir að huga að því að styrkja sviðið. Mugion, Fjallabræður, Valgeir Guðjónsson og Contalgen Funeral eru aðalnúmerin í ár. Ekki er útilokað að fleiri listamenn bætist við.
 
„Við vildum endilega hafa sem flesta Vestfirðinga á sviðinu í ár og því fengum við til okkar fjölmennustu, karlmannlegustu, vestfirsku hljómsveitina sem er starfandi í dag. Það er sannur heiður að fá þá til okkar og eru menn strax farnir að plana styrkingar á sviðinu til að ráða við þennan fagra hóp,“ segir í tilkynningu Bræðslunnar um Fjallabræður.

Mugison og Valgeir Guðjónsson koma einnig fram á aðalkvöldi hátíðarinnar 28. júlí. „Það hefur verið stefnan í mörg ár að fá Mugison til okkar, en það hefur aldrei gengið fyrr en núna.“ Því er einnig bætt við að Valgeir hafi lengi verið á óskalistanum. Stuðmaðurinn og Seyðfirðingurinn hefur að undanförnu fagnað sextugsafmæli sínu með tónleikum og útgáfu safndisks.

Í morgun var einnig tilkynnt um fjórðu hljómsveitina sem er Contalgen Funeral, ungt og upprennandi band frá Sauðárkróki. Miðasala á Bræðsluna hefst 10. maí.
 
Í viðtali á Rás 2 skýrði Magni Bræðslustjóri frá því að dagskráin væri ekki tæmandi. Hann vildi ekki tjá sig um sögusagnir um að bandaríski tónlistarmaðurinn John Grant kæmi fram á Bræðslunni. Þá hefur ekki gengið frá dagskrá annarra daga Bræðsluhelgarinnar nema að Magni & The Haftors leika á fimmtudagskvöldi. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.