Vatnsstýring með réttum hætti

Landsvirkjun greinir frá því á vef sínum www.lv.is að fyrirtækið hafi í hvívetna farið eftir þeim reglum sem gilda um stýringu á rennsli vatns um Jökulsá í Fljótsdal frá Hraunaveitu en sú stýring hefur áhrif á vatnsmagn í fossum í ánni. Tilefnið er frétt m.a. RÚV um að vatnsstýring í fossunum sé ekki sem skyldi. ,,Þær reglur sem um þetta gilda koma fram í úrskurði umhverfisráðherra þar sem bygging Kárahnjúkavirkjunar var heimiluð. Eitt skilyrði fyrir heimildinni hljóðar svo:„Framkvæmdaraðili nýti yfirfallsvatn á skipulegan hátt á ferðamannatíma og leitist við að ná meðalrennsli í farveg Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár í júlí og ágúst í góðum vatnsárum. Í lakari vatnsárum skal framkvæmdaraðili leggja áherslu á að hafa rennsli á ferðamannatíma í farvegi Jökulsár í Fljótsdal og síðan í Kelduá eftir því sem yfirfallsvatn dugar til.“

(sjá: http://www.karahnjukar.is/files/2002_9_27_urskurdur_ur_heild.pdf)

Það er því ekkert óeðlilegt við það að lítið vatn hafi verið í ánni í sumar sökum lélegs rennslis sem veldur því að ekki hefur verið neitt vatn á yfirfalli úr Hálslóni.

 Landsvirkjun hafnar því sem fram kemur, m.a. í umfjöllun Ríkisútvarpsins, að fyrirtækið hafi gefið misvísandi yfirlýsingar um stýringu á vatnsrennsli um fossa í Jökulsá í Fljótsdal. Við eftirgrennslan vísar Ríkisútvarpið á handrit af gamalli frétt í Stöð 2 þar sem er frásögn fréttamanns en hvorki vitnað beint í né rætt við neinn hjá Landsvirkjun. Frásögn þriðja aðila er harla veikur grunnur undir ásökun um óheilindi eins og þau að standa ekki við gefnar yfirlýsingar. Vilji menn fara í rannsóknarblaðamennsku með því að grufla í þriggja ára gömlum fréttaflutningi annarra miðla ætti að vera hægur vandi að fletta upp á hvaða reglur gilda um vatnsveitu til fossanna sem um ræðir. Það liggur fyrir að Landsvirkjun hefur farið eftir þeim reglum í hvívetna og aldrei gefið neitt annað til kynna,” segir á vef Landsvirkjunar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar