Varar við breytingum á stjórnun fiskveiða

Bókun bæjarráðs Hornafjarðar um sjávarútvegsmál þann 8. maí 2009:     Atvinnulíf Íslendinga gengur í gegnum mikla erfiðleika nú um stundir. Rekstrarumhverfi fyrirtækja í landinu er háð mikilli óvissu og þar er sjávarútvegurinn sannarlega engin undantekning. Óstöðugur gjaldmiðill, háir vextir, vanmáttugt bankakerfi og erfið skuldastaða gera öllum atvinnurekstri á Íslandi erfitt um vik. Auk þessara óvissuþátta verða fyrirtæki í sjávarútvegi að glíma við sveiflur í lífríki hafsins og ekki síst aðstæður á mörkuðum erlendis.

Á síðastliðnum árum hafa sjávarútvegurinn og sjávarbyggðir einnig gengið í gegnum hremmingar. Nægir þar að nefna niðurskurð á aflaheimildum í þorski, loðnubrest og sýkingu í síldarstofninum. Þessi áföll eru öll þess eðlis að fyrirtæki í greininni verða að mæta þeim með einhverjum hætti. Efnahagssamdráttur í markaðslöndum íslenskra sjávarafurða bætir síðan gráu ofan á svart.  Birgðir af útflutningsafurðum eru teknar að safnast upp hjá fiskverkendum og söluhorfur eru verri en á síðustu misserum. Þessi áföll í sjávarútvegi auk ástands á mörkuðum ógna því störfum sjómanna og fiskvinnslufólks. Við þessar aðstæður hljóta allar aðgerðir stjórnvalda að miða að því að minnka óvissuna í rekstrarumhverfi  fyrirtækja og treysta grundvöll þeirra til framtíðar.

 

Á Hornafirði er sjávarútvegur grundvöllur byggðar og styrkur útgerðarinnar felst í fjölbreytileika veiða og vinnslu. Óhætt er að fullyrða að á Höfn eru bein störf í sjávarútvegi fleiri en 250 í plássi sem telur ríflega 1600 íbúa.  Öllum má því vera ljóst að ef hriktir í stoðum sjávarútvegarins, þá hefur það róttæk áhrif á alla samfélagsgerð á Höfn. Ef kjölfestan er löskuð þá er til lítils að tala um þróun, nýsköpun og nýjar atvinnugreinar.

 

Sjávarútvegur og útflutningur á fiski hefur lengi verið undirstöðuatvinnugrein Íslendinga og lengst af hefur þjóðin byggt afkomu sína á gjaldeyristekjum vegna viðskipta með sjávarafurðir. Mörg byggðalög á landsbyggðinni byggja afkomu sína á sjávarútvegi í dag. Vegna mikilvægis sjávarútvegs fyrir einstakar byggðir og þjóðarbúið í heild sinni er mikilvægt að unnið verði að varanlegri sátt um fiskveiðistjórnunarkerfið. Ekki er ásættanlegt að þessi grundvallaratvinnugrein þjóðarinnar sé í uppnámi fyrir hverjar kosningar. Að slíkri sátt verða allir hagsmunaðilar að koma með stjórnvöldum.

 

Af þessum sökum og í ljósi óvissunnar í efnahagsmálum þjóðarinnar varar bæjarráð Hornafjarðar eindregið við öllum ákvörðunum sem skaðað geta sjávarbyggðir landsins og leggur áherslu á að ekki verði ráðist í illa ígrundaðar ákvarðanir um breytingar á stjórnun fiskveiða.  Óvissa og átök um þessa undirstöðuatvinnugrein margra byggðalaga á landsbyggðinni sem og þjóðarinnar í heild þjóna engum tilgangi á þessum tímapunkti.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar