Tónlistarveisla til heiðurs Björgvini: Vissum ekki að hann ætti stórafmæli þegar við byrjuðum að æfa

bjggiaust.pngTónlistarveisla byggð á ferli Björgvins Halldórssonar verður frumsýnd í Valaskjálf. Forsprakki tónleikanna segir hópinn ekki hafa haft hugmynd um stórafmæli söngvarans á þessu ári þegar undirbúningurinn hófst.

 

„Það var í rauninni þannig að við höfðum ekki hugmynd um að hann ætti stór afmæli á þessu ári fyrr en við vorum langt komin með æfingar,“ segir Hafþór Valur Guðjónsson, tónlistarkennari sem haft hefur frumkvæðið að tónleikunum en stórsöngvarinn Björgvin Halldórsson varð sextugur fyrir um mánuði.

Hafþór vill lítið gefa upp um hvaða lög séu á dagskránni, annað en „Ég lifi í draumi“ sem er titillag sýningarinnar. „Við tökum helstu lög Björgvins í gegnum tíðina.“

Svipaður hópur stendur fyrir sýningunni í kvöld og var að baki Creedance-veislu í fyrra. Hafþór segir hópnum hafa litist vel á að taka lög Björgvins og byrjað að æfa fyrir áramót. „Þetta er mikil raddveisla og mikið stuð sem fólk má búast við, eins og Björgvini einum er lagið.“

Tónleikarnir í kvöld hefjast klukkan 21:00 en dyr Valaskjálfar á Egilsstöðum opna klukkustund fyrr. Miðaverð er 2.000 krónur en 1.000 fyrir 15 ára og yngri. Aukasýningar verða auglýstar á næstunni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.