Tónleikar í Vegahúsinu: Rokkað heima um jólin

Image Síðastliðinn miðvikudag, 28. desember, voru tónleikar í Vegahúsinu undir yfirskriftinni "Rokkum heima um jólin". Er þetta hluti af árlegri tónleikaröð Vegahússins og var að venju mikið fjör. 

Óvissa ríkti fyrir tónleika um það hvaða tónlistarmenn myndu troða upp. Kom það þó fljótlega í ljós og allir stóðu sig með stakri prýði.

Brynjar Þórhallsson reið á vaðið og söng nokkur lög vopnaður kassagítar. Á eftir honum kom Halldór Warén sem söng og spilaði nokkur lög, meðal annars af nýútgefinni plötu sinni. Rokkararnir í Made my mud fylgdu í kjölfarið með kraftmiklu blúsrokki eins og þeim einum er lagið. Hjalti Jón Sverrisson lokaði síðan kvöldinu ásamt fríðu föruneyti.

Eins og áður hefur komið fram stóðu allir flytjendur sig með stakri prýði og virtust áhorfendur skemmta sér vel. Vel mætt var á tónleikana og von er til þess að þessir tónleikar muni stækka enn frekar á komandi árum.

Vert er að benda á að tvær austfirskar hljómsveitir munu á komandi dögum halda útgáfutónleika. Annars vegar er það hljómsveitin Gunslinger, en hún treður upp í Gömlu símstöðinni næstkomandi föstudag ásamt strákunum í Chino. Í kvöld, 29. desember, munu síðan strákarnir í The Cocksuckerband fagna komandi útgáfu ásamt góðum gestum í Gömlu símstöðinni.

Það má því með sanni segja að tónlistarlíf Austurlands iði af lífi þessa dagana. Frekari upplýsingar um komandi tónleika má finna á facebook síðum hljómsveitanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.