Tilvitnanir í bækur Stefáns Jónssonar skreyta Djúpavog

Tilvitnanir í bækur Stefáns Jónssonar prýða ljósastaura á Djúpavogi í sumar í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu skáldsins. Maðurinn á bakvið átakið segir Stefán hafa haft mikla leikni í að glæða frásagnir sínar lífi.

Stefán Jónsson fæddist að bænum Hálsi í Hamarsfirði 9. maí árið 1923. Faðir hans, Jón Stefánsson, var skólastjóri á Djúpavogi og fjölskyldan fluttist fljótt í hús sem hann byggði sér og kallast Rjóður. Stefán ólst þar upp þar til hann fór í nám við Samvinnuskólann á Bifröst og flutti svo til Reykjavíkur þar sem hann gerðist frétta- og dagskrárgerðarmaður RÚV.

Stefán sendi frá sér fjölda bóka á ævinni og úr þeim eru tilvitnanirnar sem Kristján Ingimarsson hafði frumkvæðið að koma á ljósastaurana. „Mér fannst tilvalið að minnast aldarafmælis Stefáns með einhverjum hætti til að halda bæði nafni hans og menningararfi svæðisins á lofti.“

Að breyta fjalli


Í mörgum bóka sinna vísar Stefán til uppvaxtaráranna á Djúpavogi og sú síðasta sem hann skrifaði „Að breyta fjalli“ fjallar sérstaklega um staðinn. „Við Djúpavogsbúar höldum mikið upp á bækurnar og bókmenntaspekúlantar hafa hrósað þeirri bók sérstaklega.“

Kristján valdi tilvitnanirnar, sem eru 50 talsins, í fyrra eftir að hafa gengið í að lesa ritsafn Stefáns. „Hugmyndin kviknaði meðan ég var að lesa, þannig ég fór aftur í gengum bækurnar og punktaði hjá mér tilvitnanir. Þetta var skemmtilegt átak. Stefán hefur ríka frásagnargáfu og nær að glæða hlutina sérstöku lífi. Í „Að breyta fjalli“ segir hann frá því þegar hænur staðarins verptu í gömlum síldarhaug. Úr því gerir hann langa en líflega frásögn.“

Vel valdir staðir


Tilvitnanirnar voru hengdar upp á afmælisdegi Stefáns. Starfsfólk Múlaþings aðstoðaði við það og vandaði sig við að finna staði sem hentuðu.

„Við ætluðum að velja staðina af handahófi en starfsfólkið virðist hafa lesið tilvitnanirnar gaumgæfilega til að finna þeim góðan stað. Við höfnina eru til dæmis tilvitnanir sem tengjast sjónum eða sjósókn og nærri skólanum textar um nám.“

Kristján segir uppátækinu hafa verið vel tekið. „Ég vildi útbúa skiltin þannig að gestir og gangandi gætu skemmt sér við að lesa tilvitnanirnar og velta fyrir sér lífinu og tilverunni. Íbúarnir voru mjög áhugasamir fyrst eftir að skiltin komu upp, tóku myndir og settu á Facebook. Oft fundust lýsingar sem pössuðu skemmtilega við suma í bænum í dag. Við sjáum Íslendingana sem koma hingað í sumar stoppa og skoða.

Síðan stóð Ferðafélag Djúpavogs fyrir fræðslugöngu þar sem farið var á ýmsa staði sem tengdust bókunum hans Stefáns og rifjað upp eitthvað úr þeim eða stoppað hjá skiltunum.“

Afkastamikill


Til stendur að skiltin hangi uppi fram að dánardægri Stefáns þann 16. september en hann lést árið 1990. Hann afrekaði margt á ævinni og sat meðal annars á Alþingi í níu ár. Hann eignaðist fimm börn, þeirra þekktast sennilega Kára Stefánsson, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar.

Ekki komu öll verk Stefáns út undir hans nafni. Árið 1959 var frumsýndur söngleikurinn Rjúkandi ráð eftir „Pír Ó. Man.“ Það var dulnefni. Stefán samdi leiktextann en bræðurnir Jónas og Jón Múli Árnason lög og söngtexta. Meðal þekktra laga úr þeim söngleik er „Fröken Reykjavík.“

Kristján segir að honum hafi verið hugsað til söngleiksins á þessum tímamótum og hugmyndin um að setja hann upp lifi enn. „Ég er þó ekki kominn lengra en að hlusta á tónlistina úr honum,“ segir hann.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar