Útikennsla og vettvangsathuganir í Brúarási

Örn Þorleifsson, kennari við Brúarásskóla, bóndi í Húsey á Fljótsdalshéraði og landgræðsluverðlaunahafi, hefur skipulagt vettvangsferð og útikennslu um jarðfræði, landgræðslu og menningu frá Kollumúla í Jökulsárhlíð til Möðrudals, fyrir nemendur Brúarásskóla.

landgraedslan_gudrun_scmidt.jpg,,Útikennsla og vettvangsathuganir í skólastarfi njóta vaxandi viðurkenningar sem mikilvægar og gagnlegar kennsluaðferðir.  Markmið verkefninsins er að nemendur öðlist skilning á landinu, jarðfræði og lífríki er viðkemur heimabyggð og tengist búsetu Íslendinga. Einnig að þeir öðlist heilbrigt viðhorf til nýtingar og verndunar lands, læri að umgangast landið og þykja vænt um það. Nemendur eiga að þjálfast í að lesa landið og geta útskýrt hvað er um að vera á hverjum stað, eins og hvort um landeyðingu eða landbætur er að ræða", eins og segir í frétt á heimasíðu Landgræðslunnar.

Undir lok skólaársins, síðast í mai, fóru krakkarnir í 5. og 6. bekk Brúarásskólans í þessa dagsferð með Erni og umsjónarkennarum sínum, Idu Ceciliu Bergman.

Á leiðinni frá Kollumúla að Möðrudal voru skoðuð og rædd ýmis jarðfræðileg fyrirbæri.  Hvað er eldstöð? Myndun Héraðssands og hvers vegna renna ár og fljót í stórum sveigum á jafnsléttu. Sleðbrjótsmelar og tjarnirnar við Breiðumörk. Hauksstaðahólar, Mælishóll og Skessugarður svo eitthvað sé nefnt. Rætt var um jarðvegs- og gróðureyðingu og mögulegar aðgerðir til landbóta, sagðar sögur af atburðum á svæðinu og rætt um lifnaðarhætti og menningu. Töluverð uppgræðsla er á þessari leið eins og á Hjarðarhagaaurum og við Sænautasel sem nemendur skoðuðu. Í Möðrudal slóst svo Vernharður Vilhjálmsson, bóndi og landgræðsluverðlaunahafi með í hópinn til að sýna nemendum hvað hann hefur verið að gera til að græða upp landið sitt.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.