„Þetta verður bara stanslaust húllumhæ“

„Það er mikil spenna, gleði og gaman auk þess sem veðurspáin fyrir helgina er góð og Öxi opin,“ segir Ólafur Björnsson, framkvæmdastjóri Hammondhátíðarinnar á Djúpavogi sem hefst á morgun.Hammondhátíðin er nú haldin í ellefta skipti en meginhlutverk hennar er að heiðra og kynna Hammondorgelið. Er það gert með því að fá tónlistarmenn, allt frá heimamönnum til landsþekktra, til að leika listir sínar og er Hammondorgelið rauði þráðurinn í gegnum alla dagskrána. Hátíðin er alltaf sett á sumardaginn fyrsta, sem er á morgun, fimmtudag.

Ólafur segir aðsóknina alltaf vaxandi ár frá ári. „Við bættum við 25 heildarpössum á hátíðina í ár frá því í fyrra og þeir eru allir farnir. Það sem fyllir þó hverja tónleika er lausatraffíkin á hvern viðburð fyrir sig og enn eru lausir miðar fyrir þá sem ákveða að koma í gleðina á síðustu stundu, en ég hvet fólk þó til þess að tryggja sér miða sem fyrst.“Gerir ekki upp á milli barnanna sinna

Sem fyrr mun rjóminn af íslensku tónlistarfólki troða upp á hátíðinni, en í ár eru það Mugison, Dikta, Emmsjé Gauti, Íris Birgisdóttir, Karl Orgeltríó, Föstudagslögin og Langi Seli og Skuggarnir.

„Ég geri nú ekki upp á milli barnanna minna, en ég verð að segja að ég er mjög ánægður að fá Langa sela og skuggana með okkur í ár, en þeir eru ógeðslega kúl og löngu orðnir þjóðargersemi. Dagskráin er bara í heild sinni algerlega frábær, þarna höfum við Mugison og Emmsjé Gauta sem er einn vinsælasti tónlistarmaður landsins í dag. Þetta verður bara stanslaust húllumhæ.“


Umfangsmikil utandagskrá

Utandagskrá Hammondhátíðarinnar hefur einnig vaxið og dafnað og verður sífellt fjölbreyttari frá ári til árs.

„Ég hef ekki einu sinni orðið tölu á þeim viðburðum sem eru á dagskrá, þeir eru svo margir. Það sem kannski ber hæst þar er frumsýning myndarinnar „Hans Jónatan og maðurinn sem stal sjálfum sér" í Havarí. Þar er farið yfir afar áhugaverða sögu Hans Jónatans sem var þræll á danskri í nýlendu eyju í karabískahafinu en settist að á Djúpavogi í byrjun 19. aldar og gerðist kaupmaður.

Þá ætlar Prins Póló að halda upp á fertugsafmæli sitt á laugardaginn með pomp og prakt þar sem öllum er boðið.“


Edrúlífið á sínum stað

Edrúlífið verður á sínum stað á Hammondhátíðinni en í ár munu þau Sólveig Eiríksdóttir og Pétur Örn Guðmundsson miðla af sinni reynslu. Sólveig er betur þekkt sem meistarakokkur og frumkvöðull í íslensku hollustufæði og Pétur er einn af fremstu söngvurum landsins. Hér má lesa viðtal við Pálma Fannar Smárason sem tekið var í fyrra, um tilurð hátíðarinnar. Hér má svo lesa námar um viðburðinn í ár.

Hér er heimasíða Hammondhátíðarinnar og hér er Facebooksíðan - þar sem hægt er að sjá dagskrána í heild sinni. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar