Systur að austan mætast í Söngkeppni framhaldsskólanna

Systurnar Ragnhildur Elín og Jóhanna Malen Skúladætur taka þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna annað kvöld fyrir sinn hvorn skólann. Ragnhildur segir þær tilbúnar að samgleðjast hvor annarri ef önnur lendir í verðlaunasæti.

„Ég held að foreldrar okkar séu mjög glaðir og stoltir yfir að eiga tvö börn í keppninni en hugsa að þau séu töluvert stressuð,“ segir Ragnhildur Elín.

Hún er yngri, fædd árið 2001 og syngur lagið Benny and the Jets eftir Elton John fyrir hönd Menntaskólans á Egilsstöðum ásamt Soffíu Mjöll Thamdrup og Karenu Björnsdóttur.

Jóhanna Malen er tveimur árum eldri og sigraði í söngkeppni Menntaskólans í Hamrahlíð með flutningi á laginu Spectrum (Say My Name) frá hljómsveitinni Florence + The Machine.

„Mér fannst skrýtið fyrst að við skyldum vera að fara keppa hvor við aðra en ég varð mjög glöð þegar hún vann MH keppnina, þannig ég er meira spennt en stressuð. Ég held að hún taki þessu líka vel, ég hef ekki spurt hana sérstaklega. Það er pínu keppnisskap í okkur en við munum samgleðjast hvor annarri ef önnur lendir í verðlaunasæti.“

Sönghæfileikarnir frá afa

Ragnhildur Elín segir þær systur hafa fengið gott tónlistaruppeldi sem skilað hafi þeim í keppnina í kvöld.

„Pabbi okkar (Skúli Björn Gunnarsson) var í hljómsveit þegar hann var í menntaskóla en ég held að sönghæfileikarnir komi frá afa okkar, Gunnari Guttormssyni (Litla-Bakka í Hróarstungu). Hann hefur verið karlakórum eins og Drífanda.

Við byrjuðum báðar að læra á fiðlu um leið og við fórum í grunnskóla. Sá bakgrunnur hefur hjálpað mikið í söngnum. Síðan höfum við hlustað mikið á tónlist.“

Auk þessa hefur Ragnhildur fengið mikla þjálfun í að koma fram ásamt Karen og Soffíu. „Við höfum komið mikið fram fyrir austan, bæði á vegum Tónlistarskólans á Egilsstöðum en líka skemmtunum á borð við Skógardaginn mikla. Það hefur verið gaman og gefið okkur mikla reynslu.“

ME fyrst á svið

Keppnin á morgun fer fram í íþróttahöllinni á Akranesi. Hún hefst klukkan 21 og verður í beinni sjónvarpsútsendingu RÚV. Ragnhildur, Karen og Soffía verða fyrstar á svið en Jóhanna Malen þriðja síðust.

„Við lentum fremst þegar var dregið. Við erum spenntar fyrir þessu, við vorum að koma af æfingu og það hefur gengið mjög vel. Ég held að það sé fínt að byrja, þá erum við búnar og getum fylgst rólegar með hinum atriðunum.“

Austfirðingar verða oftar í sjónvarpinu um helgina. Fljótsdalshéraði mætir Ölfusi í undanúrslitum Útsvars klukkan áta í kvöld.

Karen, Soffía og Ragnhildur Elín. Mynd: Skúli Björn Gunnarsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar