Stuttmyndakvöld í Sláturhúsinu

Átta stuttmyndir eftir sex austfirska kvikmyndargerðamenn verða sýndar í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu á Egilsstöðum í kvöld. Skipuleggjandi segir tækifæri vera til að koma á framfæri myndum eftir efnilegt kvikmyndagerðarfólk af svæðinu.

„Ég er búin að vera að vinna hjá Fljótsdalshéraði í sumar við skapandi sumarstörf og kvikmyndanámskeið. Samningurinn minn var fram í ágúst og ég hafði tíma núna í lokin til að framkvæma þessa hugmynd,“ segir Anna Karín Lárusdóttir.

Hún er ein þeirra sex höfunda sem sýna myndir sínar í kvöld en hin eru Almar Blær Sigurjónsson, Benjamín Fannar Árnason, Guðný Rós Þórhallsdóttir, Hildur Vaka Bjarnadóttur Klausen og Hlynur Pálmason.

Hornfirðingurinn Hlynur er trúlega þekktasta nafnið í hópnum en hann hefur gert tvær kvikmyndir í fullri lengd, Vetrarbræður og Hvítur, hvítur dagur sem fengið hefur frábærar viðtökur. Í kvöld verður sýnd hans síðasta stuttmynd, sem ber heitið Sjö bátar.

„Ég vissi að þessi mynd væri til en það er erfitt að nálgast hana og þess vegna er spennandi að geta sýnt hana. Það er gaman að hafa eitt nafn í hópnum, annars er þetta vettvangur fyrir unga kvikmyndagerðarmenn sem eru að stíga sín fyrstu skref.

Hópurinn er blandaður. Sumir hafa verið meira í sviðslist en gert tilraunakenndar myndir meðan við Guðný fórum báðar í gegnum Kvikmyndaskóla Íslands og höfum síðan starfað að ýmsum verkefnum.“

Anna Karín, sem ólst að hluta til upp á Egilsstöðum, vonast að stuttmyndakvöldið geti verið ungu kvikmyndaáhugafólki hvatning. „Mig langaði að sýna að það er fólk af Austurlandi að gera kvikmyndir. Það sá ég ekki þegar ég var að alast hér upp.

Stuttmyndir eru oft ekki aðgengilegar. Aðgangur að þeim í gegnum netsíður eða annað er oft læstur því myndirnar eru á hátíðatúrum. Þess vegna er þetta tækifæri til að sjá þær.“

Sýningin hefst klukkan 20:00 og er aðgangur ókeypis. Í tilkynningu frá skipuleggjendum eru gestir minntir á að sæti séu takmörkuð vegna samkomutakmarkana. Þess vegna þurfi áhorfendur að hafa nægt bil á milli sín, gott sé ef nákomnir sitji saman í litlum hópum og betra sé að mæta tímanlega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.