Stuðningur sem sýnir hve heilbrigðisþjónustan er mikilvæg

Þrenn félagasamtök afhentu nýverið jafn mörg tæki til starfsemi Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Egilsstöðum. Forstjóri stofnunarinnar segir gjafmildi samfélagsins eiga stóran þátt í hve vel tækjum búin stofnunin sé.

„HSA er nokkuð vel tækjum búin en því miður er ekki hægt að þakka það íslenska ríkinu, heldur miklu frekar samtökum eins og ykkar,“ sagði Guðjón Hauksson, forstjóri stofnunarinnar við afhendinguna. Hann sagðist þó merkja aukinn vilja og ríkisins síðustu tvö ár til að fjármagna tæki á landsbyggðinni.

Stofnunin fékk hjartastuðtæki frá Hollvinasamtökum heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði, svefnrannsóknatæki frá Kvenfélaginu Bláklukku og lyfjagjafastól frá Lionsklúbbnum Múla.

Hollvinasamtökin hófu söfnun sína fyrir tækinu í nóvember. „Okkur barst ábending um að heilsugæslan hér ætti ekki hjartastuðtæki heldur notaðist við tæki Rauða krossins sem væri staðsett í sjúkrabílum,“ sagði Eyþór Elíasson, formaður samtakanna.

Tækið kostaði alls 3,1 milljón og var fjármagnað með framlögum einstaklinga og fyrirtækja auk þess sem Félag hjartasjúklinga á Austurlandi lagði til hálfa milljón. „Tækin eru mikið notuð í sjúkrabílunum og það eykur öryggið að hafa tæki nær okkur,“ sagði Guðjón.

Svefnrannsóknatækið bætir einnig þjónustuna verulega. „Áður hefur fólk þurft að fara á sjúkrahúsið í Neskaupstað og sofa þar. Nú kemur fólk á heilsugæsluna, fær kennslu þar, fer með tækið heim, sefur með það og kemur aftur daginn eftir til að skila tækinu með gögnum til úrlestrar,“ segir Guðjón.

Hann sagði lyfjagjafastólinn auka þægindi, bæði þeirra sem þurfi í lyfjagjöf en ekki síður starfsfólks.

Guðjón sagði gjafirnar bæði hvetja starfsfólk HSA til dáða við þjónustu sína en líka leggja skyldur á herðar þess að standa sig vel.

„Þegar einstaklingar og fyrirtæki gefa fleiri milljónir af sínu fé til að við getum sinnt okkar þjónustu vel þarf HSA og starfsfólk stofnunarinnar að standa í lappirnar og gera það eins vel og á verður kosið. Þegar við fáum svona stuðning vinnum við hve mikilvægt það er að halda úti góðri þjónustu í öllum byggðarlögum. Við gerum okkar besta til að þessi tæki komi að góðum notum og verði þjónustunni til framdráttar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar