Stefán Bogi: Langaði extra mikið að vinna

stefan_bogi_utsvar_alka.jpg
Stórleikarinn og spurningajöfurinn Stefán Bogi Sveinsson var sigri hrósandi þegar Agl.is náði tali af honum eftir 74-69 sigur Fljótsdalshéraðs á Garðabæ í undanúrslitum spurningakeppninnar Útsvars í kvöld. Stefán segir liðinu hafa liðið vel þrátt fyrir mikla spennu í keppninni.

„Þetta var gaman. Við vissum að Garðabæjarliðið væru erfiðir andstæðingar. Ekki það að við höfum mætt neinum léttum í vetur en við höfum tvisvar áður tapað fyrir Garðabæ og því langaði okkur extra mikið að vinna og komast í úrslitin,“ sagði Stefán Bogi þegar Agl.is náði tali af honum eftir keppnina. Hann var þó ekki í afmælishófi hjá Vilhjálmi Bjarnasyni, liðsmanni Garðabæjarliðsins, sem varð sextugur í gær.

„Okkur leið ágætlega þótt forustan sveiflaðist á milli. Það voru margir að austan í salnum og það hjálpaði okkur.“

Litla flugan kom upp á æfingu

Lið Fljótsdalshéraðs, sem Ingunn Snædal og Þorsteinn Bergsson skipa auk Stefáns Boga, byrjaði betur og komst í 6-0 en Garðbæingar svöruðu rækilega fyrir sig og voru yfir, 6-14 áður en kom að athyglisspurningunni. Þar kræktu Héraðsbúar í fimm stig og svöruðu síðan báðum vísbendingaspurningunum rétt. Sú seinni var leikin um íslenskt dægurlag. Héraðsbúarnir áttuðu sig strax á að um Litlu fluguna væri að ræða.

„Við tókum íslensk dægurlög fyrir á leikæfingu í dag. Litla flugan var þar á meðal og hún var okkur ofarlega í huga.“

Stoltur af álkunni

Þetta skilaði Fljótsdalshéraði forustu fyrir látbragðsleikinn. Þar skildi fyrst á milli liðanna. Á meðan Garðbæingar stautuðu sig í gegnum stafrófið léku Héraðsbúar af innlifun og svöruðu öllu nema einu rétt.

„Leikurinn er um það bil það eina sem maður getur æft. Við reynum alltaf að taka eitt leikrennsli fyrir hverja keppni. Þetta er nokkuð sem vel hefur legið fyrir okkur.“

Sem það sannarlega gerði. Túlkun Stefáns Boga á varpfuglum og snerpa samherja hans skilaði Fljótsdalshéraði nítján stiga forustu fyrir stóru spurningarnar. Túlkun hans á álku verður lengi í minnum höfð þótt samherjum hans, tækist ekki að giska á fuglinn. Þeir gátu vart hugsað fyrir hlátri.

„Steini horfði á mig og sá strax að ég var fálkalegur. Ég náði að miðla þessu þótt þetta endaði óvart í röngu orði,“ sagði Stefán Bogi og bætti við: „Ég er stoltur af frammistöðu minni.“

Reiknar ekki með að vinkonan taki áskoruninni

Símavinurinn skilaði tíu stigum í hús í stóru spurningunum en Garðbæingar sóttu ákaft og jöfnuðu í 69-69. Fljótsdalshérað átti samt spurningu til góða sem reyndist auðveld og tryggði sigurinn. Að venju skiptust liðin á gjöfum, Fljótsdalshérað afhenti matarkörfu frá Austfirskum krásum og geisladisk með Dúkkulísunum.

„Það eina sem brást var að í geðshræringunni eftir keppnina gleymdi ég að segja hvaðan karfan kom,“ segir Stefán.

Andstæðingarnir í úrslitunum verða Grindvíkingar sem í síðustu viku unnu Ísfirðinga. „Okkur líst mjög vel á. Okkur hefur fundist þau vera skemmtileg og ég á von á að þetta verði góður þáttur.“

Stefán Bogi notaði tækifærið í lokin til að skora á flokkssystur sína úr Framsóknarflokkinum og vinkonu, Bryndísi Gunnlaugsdóttur að skipta sér inn á í Grindavíkurliðið. Við hæfi væri að forsetar bæjarstjórnar færu fyrir sínum liðum en þau tvö eru þau yngstu sem gegna því hlutverki á landinu. 

Stefán á samt ekki von á að Bryndís taki áskoruninni. „Hún þorir ekki, hún er svo mikil hæna,“ segir hann og hlær.

Innihald gjafakörfunnar frá Austfirskum krásum
Birkisýróp og rababarasultu með vanillu frá Holt og Heiðum. (Hallormsstað)
Gulrófugló, lummublanda og morgungrautur frá Móður Jörð. (Vallanesi)
Gjafabréf í hádegishlaðborð fyrir 2 frá Klausturkaffi, Skriðuklaustri.
Egilsstaðafeti, frá Fjóshorninu, Egilsstöðum.
Krækiberjasýróp og villisveppir frá Eik listiðju.
Grafið lamb og útsvarslæri frá Snæfelli kjötvinnslu. (Austfirskt útsvarslæri úrb m/endaleggbeini, villikryddað).

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.