Stefán Bogi: Ekki spurningar sem hentuðu okkur

fljotsdalsherad_utsvar_urslit12_0007_web.jpg

Stefán Bogi Sveinsson, miðjumaður Útsvarsliðs Fljótsdalshéraðs, segir spurningarnar ekki hafa fallið að styrkleikum liðsins í úrslitum keppninnar á föstudagskvöld þar sem liðið tapaði fyrir Grindavík 55-72.

 

„Þú getur bæði verið heppinn og óheppinn í stóruspurningarnar, sem ráða eiginlega alltaf úrslitum. Við fengum ekki spurningar sem féllu að okkar sérsviðum og því fór sem fór,“ sagði Stefán Bogi í samtali við Agl.is eftir úrslitakeppnina.

Liðið gat ekkert þeirra fjögurra fimmtán stiga spurninga sem það fékk í lokin. Á brattann var þó að sækja allan tímann. Liðið fékk aðeins tvö stig út úr hraðaspurningunum á meðan Grindavík safnaði strax í sarpinn.

Héraðsbúar hringdu bjöllunni heldur snemma í athyglisspurningunni og misstu Grindvíkinga þar enn frekar frá sér. Suðurnesjaliðið náði meira að segja betri árangri í leiknum, þótt aðeins munaði einu atriði í veðurhugtökum. Fljótsdalshérað sótti á í valflokkaspurningunum en Grindvíkingar sluppu þar ávallt með skrekkinn. 

Austlendingarnir áttu samt fulla möguleika þegar kom í stóru spurningarnar en þær fóru forgörðum. „Liðin eru missterk í hraðanum og við erum ekkert óvön því að vera undir eftir hann. Það eru aðrir þættir sem jafna þetta út og undir lokin var þetta orðið þokkalega jafnt. Þetta féll bara ekki með okkur.“

Stefán Bogi segist ekkert vita um framhald liðsins sem í hafa verið Ingunn Snædal og Þorsteinn Bergsson. „Ég hef ekkert heyrt í liðsfélögunum og er ekkert búinn að ákveða mig enn.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.