Sprengja úr El Grillo gerð óvirk
Í dag fannst sprengja í flaki skipsins El Grillo á botni Seyðisfjarðar. Hún fannst þegar kafarar fóru niður að flakinu til að sækja þangað hluta af fallbyssu sem til stendur að gera upp. Menn úr sprengjudeild Landhelgisgæslu Íslands koma væntanlega til Seyðisfjarðar á morgun til að gera sprengjuna óvirka. Nokkur fjöldi sprengja hefur fundist í og við El Grillo gegnum tíðina.
Kafarar Landhelgisgæslunnar munu sjá um að sækja sprengjuna og gera hana óvirka á þurru landi.
El Grillo var tíu þúsund lesta olíubirgðaskip Bandamanna sem þrjár þýskar flugvélar gerðu sprengjuárás á í síðari heimsstyrjöldinni á Seyðisfirði þann 4. september 1942. Eftir árásina var skipið svo laskað að Bretar ákváðu að sökkva því, þó mikið magn olíu væri enn um borð. Skipið liggur á um 30-40 metra dýpi og er vinsæll áfangastaður sportkafara.
Árið 2004 vann síðan Landhelgisgæslan að því að fjarlægja verulegt magn af skotum og sprengiefni úr flakinu, en á tímabilinu frá 1972-2006 hafa yfir 500 sprengjur verið fjarlægðar úr því.