Söngleikurinn ádeila nemenda á þriggja ára menntaskólakerfið

„Áhorfendur mega búast við mikilli skemmtun og einnig því að átta sig betur á því um hvað við unglingarnir erum að hugsa,” segir Hildur Vaka Bjarnadóttir Klausen, formaður Leikfélags Menntaskólans á Egilsstöðum, en félagið frumsýnir söngleikinn Thriller í leikstjórn Ísgerðar Gunnarsdóttur í Valaskjálf á laugardagskvöldið.



Söngleikurinn Thriller byggir á lögum Michael Jackson og spuna leikhópsins sem svo var settur saman af Ísgerði. Aðspurð að því hvort nýjustu fréttir af Michael Jackson hafi haft einhver áhrif á hópinn segir Hildur Vaka; „Vissulega komu smá áhyggjur í hópinn, en við vorum komin langt í ferlinu þegar þessar fréttir bárust. Við tókum ákvörðun um að láta þetta ekki á okkur fá eða skemma fyrir okkur, enda snýst sýningin ekki á nokkurn hátt um Michael Jackson, við erum aðeins að nota tónlistina hans, sem er enn mjög góð.”

Hildur Vaka segir verkið fjalla um líf unglinga og allt það sem þeir takast á við. „Við komum líka inn á skólakerfið, en í verkinu er þriggja ára menntaskólakerfinu mótmælt og krakkarnir vilja fá fjögurra ára kerfið á ný,” segir Hildur Vaka, en aðspurð að því hvort það séu raunverulegar skoðanir mennskælinga á Egilsstöðum segir hún. „Við auðvitað tölum ekki fyrir alla, en já, þetta er skoðun margra. Það er mikið talað um að menntaskólaárin séu bestu ár lífsins en við náðum ekkert að njóta þeirra eftir að náminu var pakkað svona saman, við erum alltaf að læra og það er voða lítill tími fyrir félagslíf.”

Fjölmargir koma að sýningunni
Alls eru fimmtán leikarar í sýningunni en Hildur Vaka segir þó mun fleiri koma að henni. „Það eru mjög margir sem koma að verkefninu á einn eða annan hátt. Einhverjir eru í sviðsmynd, aðrir koma að hári og förðun og enn aðrir að leikskrá svo eitthvað sé nefnt. Þá hefur allskonar fólk veitt okkur stuðning, mömmur hafa komið með kökur og starfsfólk skólans hefur fylgst með okkur.”

Frumsýing verður klukkan 22:00 á laugardagskvöldið, en allar upplýsingar um frekari sýningar má sjá hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.