Sýningin Flóðið opnar í Neskaupstað

Á morgun opnar sýningin „Flóðið“ í fundarsal Hótel Egilsbúðar í Neskaupstað. Á sýningunni má líta ljósmyndir og kvikmyndir sem teknar voru á vettvangi í Neskaupstað eftir að snjóflóðin féllu þann 20. desember 1974.

 

Föstudagurinn 20. desember er án vafa mesti áfalladagur í sögu Neskaupstaðar. Laust fyrir klukkan tvö eftir hádegi skall snjóflóð á síldarverksmiðjuna og áföst mjölgeymsluhús og gereyðilagði þau ásamt öðrum húsum sem stóðu nærri. Nokkrum mínútum síðar féll annað flóð örlítið utar sem eyðilagði húsakost tveggja fyrirtækja og eitt íbúðarhús. Flóðin lömuðu atvinnulíf bæjarins en það sem aldrei varð nokkurn tímann bætt voru tólf mannslíf sem flóðin tóku.

Þótt brátt séu liðin þrjátíu og sex ár lifa snjóflóðin í minningu íbúanna og allir Norðfirðingar sem upplifðu harmleikinn geta rifjað upp nákvæmlega hvar þeir voru staddir þegar þau féllu. Svo djúp spor markaði þessi dagur í sögu bæjarins að fólkið sem upplifði þau kaflaskiptir henni gjarnan í tímann „fyrir og eftir Flóð“.

Sýningin „Flóðið“ er af stofninum til sú sama og Jón Hilmar Kárason setti upp í Blúskjallaranum í Neskaupstað sumarið 2008. Á þeirri sýningu bar að líta sænskar fréttamyndir sem teknar voru á vettvangi fyrstu dagana eftir snjóflóðin og sýndu þær glöggt hvers konar gereyðingarmáttur bjó í þeim. Að auki hafði verið safnað saman í möppur umfjöllun íslenskra prentmiðla. Á sýningunni „Flóðið“ verða sömu myndir hafðar til sýnis en hafa þær verið hreinsaðar, snyrtar til og settar á striga. Möppur með umfjöllun prentmiðla verða áfram aðgengilegar en þess utan verður nú einnig hægt að lesa handrit af fréttum Ríkisútvarpsins frá 20. desember fram að áramótum. Gefa þær góða mynd af atburðarásinni þessa daga. Þá munu vafalítið vekja athygli kvikmyndir úr safni Ríkissjónvarpsins sem sumar hafa aldrei verið sýndar opinberlega.

Í tilefni af opnun sýningarinnar verður haldin samkoma í Hótel Egilsbúð þar sem flutt verða erindi er tengjast snjóflóðunum með einum eða öðrum hætti. Meðal framsögumanna verða Rósa Margrét Sigursteinsdóttir og Árni Þorsteinsson sem bæði lentu í flóðunum. Að þau hafi komist lífs af verður einungis lýst sem kraftaverki.

Það er von þeirra sem standa að sýningunni „Flóðið“ að hún sé liður í því að halda á lofti minningu þeirra sem fórust og jafnframt að hún minni á þá hættu sem enn stafar af snjóflóðum á Norðfirði. Samkoman í Egilsbúð hefst klukkan 17, opnar sýningin að henni lokinni í fundarsal Egilsbúðar og stendur hún til laugardagsins 22. maí. Opnunartími er sem hér segir:

Mán, þri, mið og fim: 18 til 22.

Fös og lau: 12 til 22.

Opnunartími í sumar verður auglýstur síðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar