Sökkti breski herinn bát úti fyrir Austfjörðum til að drepa íslenskan kommúnista?

mulathing_2012.jpg
Aldrei hefur neitt spurst til mb. Sæbjargar sem fór frá Seyðisfirði í nóvember árið 1942. Um borð var Hallgrímur Hallgrímsson, einn af lykilmönnum íslenskra kommúnista í þá daga. Kenningar eru upp um að breski herinn hafi af ásettu ráði grandað skipinu til að koma Hallgrími fyrir kattarnef.

Frá þessu segir í grein Ólafs Gríms Björnssonar „Útlagi borgaralegs þjóðfélags“ í nýjasta hefti Múlaþings. Í henni er rakin saga Hallgríms sem fæddist í Mjóafirði árið 1910. Á unglingsárum fluttist hann til Akureyrar og síðar Reykjavíkur þar sem hann varð virkur í verkalýðsbaráttu og kommúnistahreyfingunni á kreppurárunu.

Árin 1931-32 var hann í Moskvu við nám í skólum Alþjóðasambands kommúnista, Vesturskólanum. Hann var síðan einn þriggja Íslendinga sem fóru á vegum Kommúnistaflokks Íslands og börðust í spænska borgarastríðinu. 

Árið 1941 var Hallgrímur ásamt öðrum manni dæmdur til 15 mánáða fangelsisvistar fyrir landráð í hinu svokallaða Dreifibréfsmáli. Breskir hermenn voru hvattir til að neita að ganga í verk Dagsbrúnarmanna sem voru í verkfalli.

Þegar Hallgrímur var laus af Litla-Hrauni hélt hann austur á land til að vinna að framgangi kommúnismans. Hann dvaldist á Eskifirði, Norðfirði og loks Seyðisfirði og lét til sín taka með greinarskrifum og fundarhöldum.

Hvað grandaði Sæbjörgu?

Hallgrímur var annar tveggja farþega auk sex manna áhafnar um borð í Sæborginni MB sem fór frá Seyðisfirði laugardagsmorguninn 14. nóvember 1942. Ferðinni var heitið norður fyrir land. Til stóð að báturinn tæki fleiri bandaríska hermenn um borð á Langanesi þar sem reist hafði verið ratsjárstöð á Skálum. Þangað kom báturinn aldrei.

Óljóst er hvað varð til þess að báturinn fórst. Í frásögnum blaða af skipsskaðanum segir að óveður hafi geisað þennan dag. Í grein Ólafs Gríms segir að það passi illa við veðurskeyti Veðurstofunnar af svæðinu.

„Krappa öldu getur gert, þegar vindátt breytist, en í vestanátt er hægt að hafa var af landi, ef siglt er nálægt ströndinni. Vestanáttin er bezta áttin, og 6–8 vindstig ættu ekki að hafa valdið þessum báti erfiðleikum.“

Önnur kenning er sú að tundurdufl hafi grandað bátnum en fara þurfti um þrjár tundurduflagirðingar á leiðinni út úr Seyðisfirði. Þá gátu dufl slitnað upp og rekið af stað og grandað bátum.

Vildu Bretar losna við Hallgrím?

„Aðrir hafa haldið því fram, að Bretar hafi fylgzt með Sæborgu, eftir að hún fór frá Seyðisfirði, og að báturinn hafi verið skotinn niður,“ segir í greininni. Vitnar Ólafur Grímur þar í tvo nafngreinda heimildarmenn sem bera því að Bretar hafi skotið bátinn niður þar sem Hallgrímur var um borð.

„Þeir vildu losa sig við Hallgrím Hallgrímsson, mann, sem þeir vissu, að var framúrskarandi vel gefinn og þeir töldu hættulegan vegna skoðana hans, þeir óttuðust hann,“ er haft eftir öðrum þeirra.

Sjálfur tekur Ólafur Grímur enga afstöðu til þess hvað hafi grandað bátnum. Engar harðar sannanir séu fyrir hendi um örlög Sæborgarinnar. „Skýringum um afdrif Sæborgar er það sameiginlegt, að lítið sem ekkert er til þess að styðja þær né hrekja.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.