Skeytasendingar vegna snjómoksturs

Bréf hafa seinustu vikur gengið milli sveitarstjórna Djúpavogs- og Breiðdalshrepps. Ástæðan er ályktun sveitarstjórnar Djúpavogshrepps um að færa vetrarþjónustu af Breiðdalsheiði yfir á Öxi.

 

Á seinasta fundi sínum fyrir jól sendi sveitarstjórn Djúpavogshrepps frá sér ályktun þar sem þess er óskað að minnsta kosti tveir af fimm föstum ruðningsdögum á Breiðdalsheiði verði færðir yfir á Öxi.
Þetta hefur lagst illa í nágranna þeirra á Breiðdalsvík en sveitarstjórnin þar hefur lýstir yfir vonbrigðum sínum og mótmælt því að eina leiðin til að bæta þjónustu í einu sveitarfélag sé að skerða hana í því næsta.

Sveitarstjórn Djúpavogshrepps hefur rökstutt ályktun sína með að þrefelt meiri umferð hafi mælst í október um Öxi en Breiðdalsheiði. Í bókun hennar segir að mikil óánægja sé meðal vegfarenda almennt að geta ekki nýtt sér þá miklu vegstyttingu sem vegleiðin um Öxi sé, sem lokist þrátt fyrir smávægilega snjósöfnun á tveimur stöðum. Bent er á að íbúar Breiðdalshrepps fari frekar um Fáskrúðsfjarðargöng, einkum yfir vetrarmánuðina.

Sveitarstjórn Breiðdalshrepps telur hæpið að hægt sé að leggja til jafns einn mokstursdag á hvorri heiði, enda fjallvegirnir ólíkir. Hún telur það ekki sitt hlutverk að hafa skoðun á hvort auka eða skerða eigi þá þjónustu sem nágrannarnir hafi en ítrekar að þjóðvegurinn um Breiðdalsheiði sé mikilvæg tenging Breiðdælinga við Fljótsdalshérað. Hún bendir einnig á að vegurinn inn Breiðdal og út Skriðdal sé eini vegakaflinn á Hringveginum sem sé með skerta þjónustu.

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar hefur lýst yfir stuðningi sínum við áherslur sveitarstjórnar Djúpavogshrepps um snjóruðning á Öxi. Hún ítrekar einnig að nauðsynlegt sé að veginum um Breiðdalsheiði verði haldið opnum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.