Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í samstarfi við Austfirðinga

Aðventutónleikar fyrir alla fjölskylduna verða í Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar á Eskifirði sunnudaginn 29. nóvember kl. 16:00.

Á Austurlandi fagna menn aðventunni með tónleikum þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Austfirðingar leggja saman krafta sína. Efnisskráin er fjölbreytt og mun svo sannarlega koma öllum í jólaskap. Flutt verður jólaævintýrið Snjókarlinn eftir Howard Blake,  Missa brevis K 220 eftir W.A.Mozart, jólatónlist eftir Leroy Andersson og þættir úr Hnotubrjótnum eftir  P.I.Tchaikovsky. Ókeypis aðgangur fyrir grunnskólabörn.

ntur.jpg

Þátttakendur í tónleikunum auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands eru kórar á Austurlandi sem sameinast í 70 manna blöndaðan kór undir nafninu Snælandskórinn. Barnakórar frá Reyðarfirði, Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði syngja og einsöngvarar á tónleikunum eru Eydís Úlfarsdóttir sópran, Ragnhildur Rós Indriðadóttir alt, Þorbjörn Rúnarsson tenór og Valdimar Másson bassi. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson.

Tónverkið um Snjókarlinn er frá árinu 1982 og byggist á samnefndri barnasögu eftir Raymond Briggs. Í sögunni segir frá dreng og snjókarlinum hans sem vaknar til lífsins þegar drengurinn vitjar hans að nóttu.

Verkið varð þegar feikivinsælt og er til í ýmsum útgáfum, m.a.hefur verið gerð teiknimynd um söguna. Verkið verður flutt í konsertuppfærslu þar sem sögumaður, Þorbjörn Rúnarsson segir ævintýrið og barnakórar frá Fáskrúðsfirði, Stöðvarfirði og Reyðarfirði  syngja með.

W.A. Mozart samdi mikið af kirkjutónlist, messur, mótettur, og kvöldsöngva. Missa Brevis Kv. 220  eða sem oft er nefnd Spörfuglsmessan er ein sú þekktasta af  þessum verkum og er samin fyrir kór, einsöngvara og hljómsveit.

Eitt af þekktustu verkum Tchaikovsky er ballettinn Hnotubrjóturinn. Tónlistin sem er listilega skrifuð er samin við jólaævintýri þar sem segir frá hnotubrjót sem er ungur piltur í álögum og Klöru sem fær hnotubrjótinn að gjöf.  En eins og í öllum góðum ævintýrum þá endar sagan vel og drengurinn leysist úr álögunum.

Eftir Leroy Anderson verður flutt Sleigh ride og Christmas Festival sem er syrpa af þekktum jólalögum í útsetningu Andersons. Við heyrum hljóma þekkt jólalög og Snælandskórinn syngur með.

Sem fyrr segir þá eru tónleikarnir í Kirkju- og menningarmiðstöðinni í Fjarðabyggð sunnudaginn 29. nóvember kl. 16:00, aðventutónleikar sem ættu svo sannarlega að koma öllum í jólaskap.

(Fréttatilkynning frá Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðabyggðar)

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.