Ríkisendurskoðun: Alvarlegar brotalamir sem ekki verði deilt um

Ríkisendurskoðun hyggst ekki grípa til frekari aðgerða í máli Hannesar Sigmarssonar, yfirlæknis Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) að svo stöddu en hvetur heilbrigðisráðuneytið til að grípa til viðeignadi aðgerða. Í bréfi sem stofnunin sendi ráðuneytinu í vikunni segir  að um „alvarlegar brotalamir, sem ekki verði deilt um“ hafi verið að ræða í færslum yfirlæknisins á sjúkraskrá og reikningagerð.

 

ImageRíkisendurskoðun sendi frá sér tilkynningu vegna málsins á vef sínum í dag og birti um leið bréf til ráðuneytisins sem sent var á mánudag. Þar segir meðal annars: „Niðurstöður gáfu ótvírætt til kynna að honum hafi verði eða mátt vera ljóst að hann ofkrafði HSA um þóknun fyrir vinnu sína í að minnsta kosti 26 tilvikum á þeim afmörkuðu tímabilum sem til skoðunar voru.“ Niðurstöðurnar sem vitnað er til voru settar fram í úttekt á greiðslum til yfirlæknisins á tveimur um það bil mánaðarlöngum tímabilum á árunum 2007-2009.

HSA kærði lækninn til lögreglustjórans á Eskifirði í byrjun árs vegna gruns um að hann hefði dregið sér fé og vék honum frá störfum á meðan málið væri rannsakað. HSA kærði ákvörðunina til ríkissaksóknara sem komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri tilefni til að halda áfram rannsókn. „Ríkissaksóknari taldi engu að síður að skilagreinar vegna gjaldskrárverka yfirlæknisins til HSA á tímabilinu desember 2007 til desember 2008, sem unnar voru af læknaritara hafi verið rangar. Af þessum sökum hafi greiðslur til kærða á umræddu tímabili verið tæplega 1,3 m.kr. of háar. Ekki haf þó verið hægt að sýna fram á ásetning til auðgunar. HSA taldi hins vegar að ríkissaksóknari hefði horft framhjá hinu meginatriði kærunnar, þ.e.a.s. vinnubrögðum yfirlæknisins sjálfs við kódun á gjaldskrárverkum sínum á tímabilinu 16. desember 2008 til 15. janúar 2009.“

Eftir úttektina óskaði Ríkisendurskoðun, í samráði við heilbrigðisráðuneytið og HSA, eftir því að ríkissaksóknari tæki málið að nýju til rannsóknar. Sá vísaði því austur. „Þrátt fyrir framkomnar athugasemdir um hugsanlegt vanhæfi lögreglustjórans til að rannsaka málið.“ Lögreglustjórinn á Eskifirði felldi málið niður þar sem erfitt þótt „að sanna að ásetningur um auðgunarbrot hafi búið að baki í meginþorra rannsóknartilvika, þó fyrir liggi að færslur hins kærða á sjúkraskrá hafi verið ábótavant og beiting reikninga með þeim hætti að grunur hafi vaknað um misferli.“

Eftir að lögreglustjórinn felldi málið niður sendi stofnunin ríkissaksóknara fyrirspurn, ásamt minnisblaði nokkurra starfsmanna sinna og gagna um málið. Í bréfinu sem birt var í dag kemur fram að ríkissaksóknari hafi ekki talið sér fært að svara fyrirspurninni, þótt hún sé ekki kæra. „Með vísan til þessa telur Ríkisendurskoðun að líta verði svo á að ríkissaksóknari muni ekki af sjálfsdáðum hafa frekari afskipti af málinu.“

Með bréfinu í dag varpar stofnunin boltanum í fang heilbrigðisyfirvalda, aðallega heilbrigðisráðuneytisins. Hún virðist ekki líta það á það sem sína ábyrgð að kæra málið heldur sé það „fyrst og fremst á ábyrgð forstöðumanna heilbrigðisstofnana, heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknis að hafa eftirlit með og fylgja því eftir að heilbrigðisstarfsmenn virði starfsskyldur sínar. Það er einnig á ábyrgð þessara aðila að taka á hvers kyns brotum á starfsskyldum þeirra hvort sem þau varða við hegningarlög, starfsmannalög eða heilbrigðislöggjöfina.

Í ljósi þeirra alvarlegu brotalama, sem ekki verður deilt um að hafi verið á lögboðinni færslu umrædds yfirlæknis á sjúkraskrá og reikningagerð hans á hendur ríkinu, og þeirra almennu hagsmuna, sem í húfi eru í tengslum við þessa framkvæmd hvetur Ríkisendurskoðun ráðuneytið til þess að ganga rækilega úr skugga um hvaða úrræðum viðeigandi sé að beita í þessu máli. Ríkisendurskoðun mun á hinn bóginn ekki hafa frekari afskipti af málinu að svo stöddu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.