Rögnvaldur refaskytta: Skaut ref á nærbuxunum

Rögnvaldur Ragnarsson, bóndi á Hrafnabjörgum í Jökulsárhlíð, skaut ref af pallinum heima hjá sér á þriðjudagsmorgun.

 

Image Rögnvaldur veiddi sex yrðlinga og læðu á boga í lok júní. Hann hélt eftir einum yrðlingnum í búri í fjárhúsunum. Hann gaggaði á næturnar og kallaði á refinn. Refurinn virðist hafa heyrt gaggið í margra kílómetra fjarlægð því á þriðjudagsmorgunn sá Rögnvaldur hann fyrir utan gluggann hjá sér þegar hann var að drekka morgunkaffið.

„Ég sat við eldhúsborðið á nærbuxunum og þar sé ég hvar refurinn er kominn að spjalla við hvolpinn. Ég rauk niður og setti í haglabyssuna. Þá sé ég hvar hann kemur fyrir framan húsið. Ég plamma á hann af um 35 metra færi og hann steinliggur.“

Rögnvaldur segir þetta hafa verið eina grenið sem hann upprætti í vor en það var beint upp af bænum. Sjaldgæft er að refir veiðist svo nærri mannabústöðum og menn eru ekki vanir að sjá þá í nánd við hús sín.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar