Úr Íraksstríðinu til Fáskrúðsfjarðar: Gott að búa við öryggið hér

chris_shaddock_arna_kjartansdottir.jpgBandaríkjamaðurinn Chris Shaddock hefur búið á Íslandi undanfarin sex ár. Hann býr á Fáskrúðsfirði og er giftur íslenskri konu. Þar áður gegndi hann herþjónustu í Írak sem tók verulega á.

 

„Um leið og hryðjuverkaárásirnar voru gerðar á Bandaríkin 11. september 2001 vissi ég hvað beið mín. Ég var kallaður aftur í fulla herþjónustu og sendur til liðs við 160 manna eldsneytissveit í Connecticut. Sveitin var send til Íraks í maí 2003, skömmu eftir innrásina og þá var enn barist í landinu,“ segir Chris í viðtali við vikublaðið Austurgluggann.

„Hlutverk okkar var að starfrækja eldsneytisbirgðastöð á leiðinni frá Kúveit til Bagdad. Þó svo að við lentum í alls konar hremmingum féll enginn í sveitinni fyrir óvinahendi þau rúmlega tvö ár sem við vorum þarna. Sjálfur var ég hræddastur við kamelkóngulær, hræðilega árásargjarnar og illskeyttar kjötætur af stærstu gerð.“

Chris, sem er frá Boston, gekk í varalið hersins til að borga háskólanám sitt. Hann fór í fastaherinn til að gera upp skuld sína og sinnti herþjónustu í Þýskalandi, Albaníu og Kosovo. Í heimaborginni kynntist hann Arnbjörgu Kjartansdóttur sem var þar í listnámi.

Þau höfðu hafið búskap áður en Chris var sendur í stríðið. Að lokinni herþjónustunni flutti hann fljótlega með frúnni til Fáskrúðsfjarðar.

Erfitt að treysta fólki eftir stríðið

„Það reyndi verulega á þolrif manna að vera þarna í Írak fjarri fjölskyldum sínum og þetta var líka erfitt fyrir fjölskyldurnar. Í stríði fellur lífið í ákveðnar skorður og mörgum reynist erfitt að laga sig aftur að samfélaginu. Manni var innrætt í hernum að treysta ekki nokkrum manni í Írak.

Eftir heimkomuna átti ég mjög erfitt með að treysta fólki. En ég byrgði tilfinningarnar inni og taldi sjálfum mér trú um að allt væri í lagi. Áfengi fór illa í mig en ég vildi ekki viðurkenna að það væri vandamál. Ég tók heimskulegar ákvarðanir sem ég iðrast.

Þetta hafði áhrif á hjónabandið en sem betur fer lærði ég af mistökunum, horfðist í augu við vandamálin og hef ekki bragðað áfengi í meira en þrjú ár. Fjölskyldan hefur aldrei verið hamingjusamari en núna og fyrir skömmu endurnýjuðum við Adda hjúskaparheitið á afmælisdaginn minn.“

„Veðrið er ekki svo slæmt“

Eftir að Chris kom heim fékk hann fyrst vinnu í fiski en flutti sig síðan yfir Bechtel og loks Alcoa-Fjarðaáls þar sem hann starfar í dag. Hann segist kunna vel við sig á Íslandi.

„Það er gott að búa við öryggið hérna og maður fórnar því ekki svo glatt. Fólkið hérna er gott, náttúran falleg og veðrið heldur alls ekki svo slæmt. Það er til dæmis miklu kaldara í Boston á veturna. Svo er ómetanlegt að hafa öruggt starf á góðum vinnustað og búa við traust heilbrigðis- og tryggingakerfi.

Íslenskan mín ætti að vera miklu betri eftir sjö ára dvöl í landinu. Fólki finnst bara einhvern veginn eðlilegt að tala ensku við mig. En nú ætla ég að taka tungumálið föstum tökum. Krakkarnir eru líka duglegir að leiðrétta mig.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar