Óvenju margir Austfirðingar skráðir í Fjallagönguna um helgina

Eins og verið hefur síðustu árin mun síðasti leggur skíðagöngumótaraðar Skíðasambands Íslands, Íslandsgöngunni, fara fram á Fjarðarheiði á laugardaginn kemur undir heitinu Fjallagangan. Austfirskir keppendur jafnan ekki verið algengir í aðalgöngu mótsins en óvenju margir hafa skráð sig til leiks í 15 km skemmtigöngunni.

Íslandsgangan samanstendur af alls sex mótum ár hvert þar sem harðasta skíðagöngufólk landsins keppir sín á milli í 20 til 30 km löngum göngum. Samhliða þeim fara þó einnig fram léttari 15 km og 5 km göngur þar sem áherslan er á skemmtun og hollri útiveru þar sem allir geta verið með.

Keppni en holl skemmtun um leið

Að sögn Björgvins Rúnars Þorvaldssonar, eins skipuleggjenda, verður ræst út í öllum flokkum á slaginu 10 á laugardagsmorgunn en keppnisgögn verða afhent klukkustund fyrr klukkan 9. Verðlaunaafhending er svo í Vök Baths klukkan 15.30 þann sama dag.

„Þarna eru fjölmargar flottar gönguleiðir, færið aldeilis ágætt og veðurspáin alveg þokkaleg miðað við stöðuna nú þó því miður sé nú ekki gert ráð fyrir sól þann daginn. Við ræsum alla út  á sama tíma og startið er svona nokkurn veginn efst á brún Fjarðarheiðar Egilsstaðamegin. Gengið er góðan hring og keppendur í 30 km göngunni fara hringinn tvívegis. Endastöðin er því á sama stað og allir fá súpu og paté í lokin.“

Björgvin viðurkennir fúslega að austfirskt skíðagöngufólk hafi almennt ekki mikið tekið þátt í keppnisgöngunni gegnum tíðina en segir skemmtilegt hvað margir hafi skráð sig nú þegar í 15 km gönguna. Hvetur hann áhugasama til að skrá sig en henni lýkur klukkan 9 í fyrramálið.

„Svo eru allir velkomnir á fjallið að fylgjast með og hvetja menn áfram og um að gera að koma með bjöllur eða eitthvað slíkt og láta í sér heyra. Það gerir þetta bara skemmtilegra.“

Yfir 60 einstaklingar hafa skráð sig til leiks á laugardag þegar þetta er skrifað sem er með mesta móti í Fjallagöngunni. Mynd Fjallagangan

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.