Ómetanlegt að vinna með fólki í heimabyggð

„Áhorfendur mega búast við góðri stund – fallegum söng, smá hlátri og líklega upplifun eigin tilfinninga og endurminninga,“ segir söngkonan Hera Björk Þórhallsdóttir sem er á ferð um landið með tónleika sína Ilmur af jólum. Fernir tónleikar verða á Austurlandi næstkomandi fimmtudag, föstudag, laugardag og sunnudag.


Með Heru Björk í för verður tónlistarfólkið Björn Thoroddsen gítarleikari, Ástvaldur Traustason píanóleikari og Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir frá Borgarfirði eystri. Auk þess koma fram góðir gestir úr heimabyggð á hverjum tónleikum.

„Ástæða þess að ég fæ með mér gesti úr heimabyggð er sú að ég fæ svo mikið út úr því sjálf. Mér þykir ótrúlega skemmtilegt að kynnast nýju fólki, hvað þá hæfileikafólki sem er að brasa í tónlist. Það er ómetanlegt að fá að hitta alla krakkana í barnakórunum, en þau gefa okkur alltaf eitthvað yndislegt og puðra yfir alla jólagleði með sinni einlægni og háa krúttstuðli. Þá þykir mér einnig gaman að gefa öllu þessu hæfileikafólki tækifæri til að koma fram með þeim frábæru listamönnum sem flakka um landið með mér.“

„Allir ættu að eiga eina Aldísi Fjólu“
Aldís Fjóla verður með Heru Björk í för alla tónleikaferðina. Hera Björk segir þær hafa kynnst fyrir margt löngu gegnum sönginn en í dag er Aldís Fjóla meðeigandi og kennari í skóla Heru Bjarkar, Söngsteypunni.

„Aldís Fjóla er mikill snillingur, yndisleg söngkona og dásamleg manneskja. Hún virkar einnig eins og mitt hægra og vinstra heilahvel, hún er skipulögð og heldur utan um þessa ferð. Hún syngur einnig með mér nokkur lög, raddar og er bara almennt skemmtileg. Allir ættu að eiga eina Aldísi Fjólu, það er bara þannig.“Tónleikarnir á Austurlandi verða sem hér segir, en miðasala er á midi.is. Einnig verða miðar seldir við inngang á hverjum stað meðan húsrúm leyfir. 

6.desember kl.20:30 - Eskifjarðarkirkja
Gestir: Andri Bergmann, Fjarðadætur og Barnakór Fáskrúðsfjarðar undir stjórn Valdimars Mássonar.

7.desember kl.20:30 – Egilstaðarkirkja
Gestir: Andri Bergmann, Nanna Imsland og Fjarðadætur ásamt Kór Fellaskóla undir stjórn Drífu Sigurðardóttur.

8.desember kl.17:00 – Djúpavogskirkja
Gestir: Greta Mjöll Samúelsdóttir og Fjarðardætur ásamt Barnakór Djúpavogs undir stjórn Sigríðar Stellu.

9. desember kl. 17:00 - Hafnarkirkja 
Gestir: Þórdís Imsland og barnakór tónskóla Austur- Skaftafellssýslu undir stjórn Maríu Rutar Baldursdóttur.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.