„Öðruvísi, gaman, krefjandi og kom vel út“

Nemendur í Menntaskólanum á Egilsstöðum nýttu tækifærið til að deila á styttingu náms í framhaldsskólum úr fjórum árum í þrjú þegar þau skrifuðu sitt eigið handrit að söngleik með lögum Michael Jackson.

„Í byrjun skólaárs fundum við leikskóla og svo leikverk sem við vildum setja upp. Við vorum ekki alveg nógu sátt við það þannig við ákváðum að skrifa okkar eigið verk með leikstjóranum

Við vorum stressuð fyrst, við höfðum sex vikur og þetta varð dálítið mikið um tíma. Þetta varð hins vegar öðruvísi, krefjandi, gaman og kom vel út,“ segir Hildur Vaka Bjarnadóttir, formaður Nemendafélags ME.

„Thriller er söngleikur með skemmtilegri tónlist. Að honum eru til tvö handriti en krakkarnir voru ekki á að nota þau í heild sinni. Þau fóru að koma með breytingar og þær voru orðnar það miklar að ég lagði til að við gerðum okkar eigið. Því fylgdi ákveðið óöryggi en við ákváðum að láta slag standa,“ segir leikstjórinn Ísgerður Gunnarsdóttir.

Leikfélag ME lýkur um helgina sýningum sínum á söngleiknum Thriller en fjallað var um hana í Að austan á N4 í gærkvöldi. Uppsetningin hefur vakið nokkra athygli því þar er deilt nokkuð hart á styttingu framhaldsskólans.

„Þetta eru krakkar sem vilja fá fjögurra ára kerfið aftur. Inni í þessu er fullt af ástardrama í tengslum við til dæmis sjúka ást og krakkar sem eru hinsegin, fullt af hlutum sem skipta máli,“ segir Fanný Dröfn Emilsdóttir, einn leikaranna.

Krakkarnir segjast hafa lært hvernig hægt sé að nýta listina til að koma á framfæri gagnrýni og að meiri líkur séu á að á hana sé hlustað ef hún er sett fram á skemmtilegan máta.

„Listin er tæki til að koma skilaboðum á framfæri, spegla samfélagið og segja eitthvað sem skiptir þau máli. Ég spurði hvað þau vildu segja og hvatti þau til að nýta tækifærið,“ segir Ísgerður.

„Þetta eru skilaboð frá kynslóðinni sem við vitum ekki endilega hvað er að hugsa.“




Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.